Enski boltinn

Van Gaal: Svekkjandi að geta ekki staðist væntingar stuðningsmanna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Louis van Gaal gengur svekktur af velli.
Louis van Gaal gengur svekktur af velli. vísir/getty
Laugardagurinn síðasti var enn einn sorgardagurinn fyrir Louis van Gaal, knattspyrnustjóra Manchester United, á þessari leiktíð.

United tapaði á heimavelli fyrir Southampton, 1-0, þar sem Charlie Austin skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið þegar þrjár mínútur voru eftir með skalla.

Manchester United er eftir tapið í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 37 stig, fimm stigum á eftir Tottenham í baráttunni um síðasta Meistaradeildarsætið þegar 15 umferðir eru eftir.

„Það er svekkjandi að geta ekki staðið undir væntingum stuðningsmanna,“ sagði Van Gaal svekktur eftir tapið. „Þeir gera - eða gerðu - miklar væntingar til mín og ég get ekki uppfyllt þessar óskir þeirra. Það er mjög svekkjandi.“

United er aðeins búið að skora 28 mörk í úrvalsdeildinni á þessari leiktíð, en leikurinn gegn Southampton var sá áttundi sem liðinu tekst ekki að skora mark í.

Stuðningsmenn liðsins eru orðnir afar þreyttir á þessari meðalmennsku og bauluðu á liðið þegar það gekk til búningsklefa eftir lokaflautið.

„Ég var sammála stuðningsmönnunum þannig baulið hafði engin áhrif á mig. Þeir þekkja fótbolta og þá sérstaklega skemmtilegan fótbolta. Maður verður að skemmta fólkinu. Það gerðum við ekki á laugardaginn þannig stuðnignsmennirnir mega vera reiðir,“ sagði Louis van Gaal.


Tengdar fréttir

David Gill: Verðum að halda ró okkar

David Gill, fyrrum stjórnarformaður Manchester United, segir að stuðningsmenn verði að halda ró sinni þrátt fyrir að gengi liðsins sé langt undir væntingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×