Enski boltinn

Van Gaal: Giggs verður eftirmaður minn hjá United

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Giggs og van Gaal eru með Manchester United í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Giggs og van Gaal eru með Manchester United í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. vísir/getty
Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að Ryan Giggs verði líklega eftirmaður sinn hjá félaginu.

Giggs, sem er 41 árs, lagði skóna á hilluna eftir síðasta tímabil og hefur síðan þá gegnt starfi aðstoðarþjálfara hjá United. Giggs, sem er leikjahæsti leikmaður í sögu Manchester United, stýrði liðinu einnig í fjórum síðustu leikjum síðasta tímabils eftir að David Moyes var látinn taka pokann sinn.

„Ég býst við að Giggs verði næsti knattspyrnustjóri eftir að ég hætti,“ sagði van Gaal í samtali við MUTV en Hollendingurinn er með samning við United til ársins 2017.

Van Gaal er mjög ánægður með störf Giggs og segir hann vel í stakk búinn til að taka við United eftir tvö ár.

„Þjálfunin er núna í mínum höndum. Hann er með ákveðin verkefni sem og leikmennirnir. Hann leysir þau vel af hendi,“ sagði van Gaal.

United sækir Everton heim á Goodison Park í ensku úrvalsdeildinni á morgun. Leikurinn hefst klukkan 12:30 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×