Enski boltinn

Van Gaal: Blind ekki frá í sex mánuði

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Louis Van Gaal.
Louis Van Gaal. vísir/getty
Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, telur að meiðsli hollenska miðjumannsins Daley Blind séu ekki jafn alvarleg og haldið var í fyrstu.

Blind fór af velli meiddur í 6-0 sigri Hollands gegn Lettlandi og haldið var að hann yrði frá í allt að sex mánuði. Guus Hiddink, landsliðsþjálfari Hollands, var mjög svartsýnn eftir leikinn og hélt að liðband í hné Blind væri slitið.

„Hann er með spelku á hnénu. Nú hvílir hann í tíu daga og fer svo í aðra myndatöku. Þá kemur þetta betur í ljós,“ sagði Van Gaal á blaðamannafundi fyrir stórleikinn gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni sem fram fer á morgun.

„Þetta er ekki jafn alvarlegt og læknarnir héldu eftir leikinn, en hann verður lengi frá held ég. Samt ekki sex mánuði eða svo.“

Ángel di María og David De Gea, sem báðir meiddust í landsleikjavikunni, eru klárir í slaginn fyrir laugardaginn en Luke Shaw og Michael Carrick eru tæpir.

„Ég þarf að sjá hvernig Carrick bregst við æfingunni á morgun, en ég býst við að hann verði klár í slaginn,“ sagði Van Gaal.

Phil Jones, Marcos Rojo, Jonny Evans, Rafael og Radamel Falcao voru ekki með gegn Crystal Palace í síðustu umferð og er líklegt að þeir verði allir upp í stúku á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×