Enski boltinn

Van Basten: Depay hefur sérstaka hæfileika

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Memphis Depay.
Memphis Depay. Vísir/Getty
Hollenska knattspyrnugoðsögnin Marco van Basten hefur miklar mætur á landa sínum Memphis Depay en hollenski landsliðsmaðurinn mun spila með Manchester United í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Memphis Depay átti mikinn þátt í því að PSV Eindhoven varð hollenskur meistari á nýloknu keppnistímabili og hann fer nú til Louis van Gaal sem gaf honum tækifærið með hollenska landsliðinu.

Marco van Basten hefur séð mikið til stráksins en Memphis Depay hefur verið lengi í stóru hlutverki í hollensku deildinni þrátt fyrir að vera bara 21 árs gamall.

„Depay hefur sérstaka hæfileika og hann er betri en aðrir leikmenn í hollensku deildinni," sagði Marco van Basten í viðtali við Sky Sports.

„Hann er mjög góður leikmaður. Þetta er ungur stjörnuleikmaður sem hefur andlegan styrk og eigin hugmyndir sem eru kostir fyrir leikmann að mínu mati," sagði Van Bater í viðtalinu.

„Hann er líka strákur sem vill læra meira og ég tel að hann sé í góðum höndum hjá Louis van Gaal sem vann með honum í kringum HM í Brasilíu í fyrra," sagði Van Basten.

„Núna þarf hann að sanna það að hann geti líka spilað vel á Englandi. Hann mun sýna það og sanna. Ég veit ekki hvort það kemur allt strax í ljós á fyrsta tímabilinu en hann hefur hæfileika til að standa sig vel í Englandi," sagði Van Basten.

Memphis Depay skoraði 22 mörk í 30 leikjum með PSV Eindhoven í hollensku deildinni en liðið vann þá sinn fyrsta meistaratitil síðan 2008. Depay var með tíu mörkum meira en í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×