Íslenski boltinn

Valur með ólöglega leikmenn í fyrsta leik Reykjavíkurmótsins

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir lyftir Reykjavíkurbikarnum fyrir Val í fyrra.
Margrét Lára Viðarsdóttir lyftir Reykjavíkurbikarnum fyrir Val í fyrra. vísir/ernir
Fylki hefur verið dæmdur sigur í fyrsta leik Reykjavíkurmóts kvenna þrátt fyrir að tapa honum, 4-0, gegn Val. Valur spilaði á ólöglegum leikmönnum í leiknum og var Árbæingum því dæmdur 3-0 sigur af skrifstofu KSÍ.

Valskonur voru með tvo leikmenn skráða í annað félag, þær Svönu Rún Hermannsdóttur og Hlíf Hauksdóttur. Báðar voru skráðar í KH, venslafélag Vals, þegar leikurinn fór fram.

Úrslitum leiksins var því breytt, í samræmi við grein 40.1 í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót, og Fylki dæmdur sigur, að því fram kemur á heimasíðu KSÍ.

Auk þess að tapa leiknum var Valur sektaður um 50.000 krónur en refsing vegna notkunnar ólöglegra leikmanna var þyngd fyrir fáeinum misserum þar sem þetta var farið að gerast svo oft.

Valur og Fylkir eru í fjögurra liða A-riðli sjö liða Reykjavíkurmóts kvenna ásamt Þrótti og ÍR. Tvö efstu liðin fara í undanúrslit. Valskonur eru ríkjandi Reykjavíkurmeistarar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×