Handbolti

Valsmenn stefna á undanúrslitin í Áskorendabikar Evrópu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Valsmenn eru í kjörstöðu til að komast áfram í undanúrslit Áskorendabikars Evrópu í handbolta.

Bikarmeistararnir unnu fyrri leikinn gegn serbneska liðinu Sloga Pozega á útivelli með þriggja marka mun, 27-30, um síðustu helgi. Seinni leikurinn fer fram í Valshöllinni á laugardaginn.

„Þetta er sú keppni sem þú getur náð lengst í, það er klárt,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson, annar þjálfara Vals, í samtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Við vissum að Haslum, sem við slógum út í 1. umferðinni, og Sporting frá Portúgal væru tvö af sterkari liðunum. Við ekki alveg að þetta ævintýri myndi gerast en þetta er frábært,“ sagði Óskar Bjarni og bætti við að Valsmenn stefni ótrauðir á sæti í undanúrslitum Áskorendabikarsins.

En hefur styrkur Valsliðsins í Evrópuleikjunum komið þjálfaranum á óvart?

„Já, við höfum náð ákveðnum karakterssigrum og sýnt fram á hluti sem ég er mjög stoltur af. Á móti kemur hefur ýmislegt gerst í deildinni sem ég er ekki jafn stoltur af,“ sagði Óskar Bjarni en Valur situr í 5. sæti Olís-deildar karla þegar tvær umferðir eru eftir af deildarkeppninni.

„Þetta hefur tekið sinn toll. Þetta er mikið af leikjum og mikil orka sem hefur farið í þetta. En ég verð að viðurkenna að ég er stoltur af strákunum og félaginu.“

Fréttina í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×