Íslenski boltinn

Valsmenn í úrslitaleikinn þriðja árið í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Páll Sigurðsson skoraði úr síðustu spyrnu Valsmanna.
Haukur Páll Sigurðsson skoraði úr síðustu spyrnu Valsmanna. Vísir/Vilhelm
Valsmenn komust í kvöld í úrslitaleik Reykjavíkurmótsins í knattspyrnu eftir 5-3 sigur á Víkingum í vítaspyrnukeppni í Egilshöllinni.

Leikurinn endaði með markalausu jafntefli en Valsmenn nýttu öll fimm vítin sín í vítaspyrnukeppninni og tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum þriðja árið í röð.

Eini maðurinn sem klikkaði á víti í vítaspyrnukeppninni var Víkingurinn Ívr Örn Jónsson sem skaut í stöngina. Víkingar fengu bara að taka fjögur víti því úrslitin voru ráðin fyrir lokaspyrnu þeirra.  

Guðjón Pétur Lýðsson, Sindri Björnsson, Einar Karl Ingvarsson og Sveinn Aron Guðjohnsen skoruðu úr fjórum fyrstu spyrnum Valsmanna og það var síðan fyrirliðinn Haukur Páll Sigurðsson sem skoraði úr síðustu spyrnunni og gulltryggði sigurinn.

Valsmenn voru manni færri í 35 mínútur en náðu ekki að skora sigurmark þrátt fyrir að hafa sótt stíft undir lok leiksins. Ragnar Bragi Sveinsson fékk sitt annað gula spjald á 55. mínútu og þar með rautt spjald.

Víkingar voru líklegri til að skora í fyrri hálfleiknum en eftir að þeir urðu manni færri tóku Valsmenn völdin á vellinum.

Valsmenn hafa spilað til úrslita við núverandi Reykjavíkurmeistara Leikni síðustu tvö ár en fá nýja mótherja í ár.

Það kemur síðan í ljós seinna í kvöld hverjir mæta Valsmönnum í úrslitaleiknum á mánudaginn kemur en þá fer fram undanúrslitaleikur Fjölnis og KR á sama stað.

Upplýsingar um vítaspyrnukeppnina er fengin úr textalýsingu vefsíðunnar fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×