Körfubolti

Valsmenn bundu enda á sigurgöngu Hattar á heimavelli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Austin Magnús Bracey skoraði 15 stig.
Austin Magnús Bracey skoraði 15 stig. vísir/anton
Valsmenn gerðu góða ferð til Egilsstaða og lögðu Hött að velli, 68-76, í 1. deild karla í körfubolta í kvöld.

Þetta var aðeins annað tap Hattarmanna í vetur en fyrir leikinn í kvöld voru þeir búnir að vinna átta heimaleiki í röð.

Höttur er áfram á toppi deildarinnar með 34 stig. Fjölnir er í 2. sæti með 30 stig og Valur í því þriðja með 28 stig. Valsmenn eiga tvo leiki til góða á Hattarmenn og Fjölnismenn.

Stjörnuleikur Aarons Moss dugði Hetti ekki til sigurs. Moss skoraði 32 stig, tók 20 fráköst, gaf sjö stoðsendingar og stal boltanum sjö sinnum.

Urald King var atkvæðamestur í jöfnu liði Vals. Hann skoraði 16 stig og tók 14 fráköst. Sigurður Dagur Sturluson og Austin Magnús Bracey komu næstir með 15 stig hvor.

Valsmenn voru nálægt því að komast í bikarúrslit í síðustu viku en þeir töpuðu naumlega fyrir KR í undanúrslitunum. Strákarnir hans Ágústs Björgvinssonar líta því nokkuð vel út fyrir lokasprettinn á tímabilinu.

Höttur-Valur 68-76 (16-11, 15-20, 18-23, 19-22)

Höttur: Aaron Moss 32/20 fráköst/7 stoðsendingar/7 stolnir, Mirko Stefan Virijevic 14/10 fráköst/3 varin skot, Ragnar Gerald Albertsson 8, Hreinn Gunnar Birgisson 7/5 fráköst, Vidar Orn Hafsteinsson 6, Sigmar Hákonarson 1/8 fráköst.

Valur: Urald King 16/14 fráköst/3 varin skot, Austin Magnus Bracey 15, Sigurður Dagur Sturluson 15/4 fráköst, Oddur Birnir Pétursson 11, Benedikt Blöndal 9/5 fráköst, Illugi Auðunsson 5/6 fráköst, Sigurður Páll Stefánsson 3, Birgir Björn Pétursson 2/10 fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×