Erlent

Valmúaræktun aldrei meiri í Afganistan

Atli Ísleifsson skrifar
Valmúaræktun er stjórnlaus í Afganistan.
Valmúaræktun er stjórnlaus í Afganistan. Vísir/AFP
Þrátt fyrir að gríðarlegum fjármunum hefur verið varið til að stemma stigu við ræktun valmúa í Afganistan hefur ræktunin aldrei verið meiri en nú.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Fíkniefna- og afbrotamálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNODC).

Í skýrslunni segir að virði þeirra ópíumafurða sem framleiddar eru í Afganistan hafi aukist um 50 prósent árið 2013 samanborið við 2012 og sé nú um 360 milljarðar króna. Valmúaræktun er ein helsta fjármögnunarleið talíbana og stríðsreksturs þeirra.

Í frétt Dagens Nyheter segir að aukningin eigi sér stað þrátt fyrir að Bandaríkin hafi varið um 920 milljörðum króna til baráttunnar gegn fíkniefnum frá árinu 2001.

John Sopko, einn skýrsluhöfunda, segir í bréfi til John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að þróunin veki upp spurningar um langvarandi áhrif og skilvirkni herferðar Bandaríkjastjórnar.

Ný tækni við að grafa brunna hefur náð útbreiðslu í suðvesturhluta Afganistan sem hefur leitt til að breyta fleiri hundruð þúsund hektara af eyðimörk í akra sem eru að stórum hluta nýttir til valmúaræktunar.

Sopko segist eiga von á að aukningin muni halda áfram næstu ár, bæði vegna versnandi öryggis í landinu og að fáir valmúaakrar séu eyðilagðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×