Erlent

Vallónar stöðva fríverslunarsamninginn

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Charles Michel forsætisráðherra og Didier Reynders utanríkisráðherra á blaðamannafundi í Brussel.
Charles Michel forsætisráðherra og Didier Reynders utanríkisráðherra á blaðamannafundi í Brussel. vísir/epa
Evrópusambandið getur ekki gert fríverslunarsamning við Kanada vegna þess að hinn frönskumælandi hluti Belgíu er á móti því.

Leiðtogar allra aðildarríkja ESB og Kanada hugðust undirrita samninginn á fimmtudaginn en fulltrúar Belgíu geta ekki undirritað hann nema hafa fyrst fengið til þess samþykki frá öllum héruðum landsins.

Vallónar, hinn frönskumælandi hluti íbúanna, hafa hins vegar verið ófáanlegir til þess að veita samþykki sitt. Evrópusambandið og Kanada gerðu þennan samning árið 2014 og höfðu samningaviðræður þá staðið yfir í fimm ár. Vonir stóðu til þess að viðskipti milli Kanada og ESB myndu aukast um 20 prósent eftir að samningurinn tekur gildi. En efasemdarmenn segja að samningurinn gagnist einkum stórfyrirtækjum, auk þess sem fyrirtæki fái möguleika á því að draga ríki fyrir dómstóla telji þau hagsmunum sínum ekki nægilega sinnt.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×