Erlent

Valencia mun bera merki UN Women næstu fjögur árin

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Dani Parejo, fyrirliði Valencia, Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastýra UN Women og Shkodran Mustafi, varnarmaður liðsins.
Dani Parejo, fyrirliði Valencia, Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastýra UN Women og Shkodran Mustafi, varnarmaður liðsins. mynd/Lázaro dela Peña
UN Women og spænska knattspyrnuliðið Valencia hafa gert samning sín á milli um að síðarnefndi aðilinn muni bera merki þess fyrrnefnda framan á búningum sínum næstu fjögur árin. Samningurinn var undirritaður í höfuðstöðvum UN Women í New York á dögunum. Valencia er fyrsta liðið sem gerir samning af þessari tegund við UN Women.

„Leikmenn Valencia eru mikilvægar fyrirmyndir sem veita stuðningsmönnum liðsins án efa innblástur til þess að taka virkan þátt í baráttunni fyrir auknu kynjajafnrétti,“ sagði Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastýra UN Women þegar samningurinn var undirritaður og hún fékk sína treyju afhenta.

Lay Hoon Chan, fyrsti og eini kvenstjórnarmeðlimur Valencia CF í 96 ára sögu félagsins er stolt af samstarfinu við UN Women. „Það er mikill heiður fyrir okkur að vinna í samstarfi við UN Women við að vekja fólk til vitundar um þetta verðuga málefni. Jafnrétti kynjanna er ekki einkamál kvenna heldur mannréttindamál sem snertir okkur öll,“ sagði Chan að lokum.

Samningurinn er liður í átaki UN Women við að efla þátttöku karlmanna og stráka í baráttunni fyrir auknu kynjajafnrétti í heiminum og er hluti af alþjóðlegri herferð UN Women, HeForShe.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×