Enski boltinn

Valdes berst fyrir frelsinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Valdes hefur lítið fengið að gera fyrir utan æfingasvæði Manchester United.
Valdes hefur lítið fengið að gera fyrir utan æfingasvæði Manchester United. Vísir/Getty
Victor Valdes, einn markvarða Manchester United, segist berjast nú fyrir frelsi sínu en fyrir löngu varð ljóst að hann á sér enga framtíð hjá félaginu.

Louis van Gaal, stjóri United, hefur engan áhuga á að nota Valdes og sakaði hann um að neita að spila fyrir U-21 lið United á sínum tíma. Valdes sagði að það hefði verið alrangt hjá stjóranum.

Valdes, sem varði mark Barcelona á sínum tíma, hefur verið orðaður við Espanyol og gæti farið aftur í sinn gamla heimabæ í janúar.

„Það hvetur mig áfram að valda þeim sem vilja sjá mig spila ekki vonbrigðum,“ skrifaði hann á Twitter-síðu sína í gær. „Ég berst fyrir frelsi mínu svo ég geti notið minnar vinnu.“

Á miðanum sem Valdes er með í hönd sinni stendur: „Það sem ekki drepur mann styrkir mann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×