Körfubolti

Valanciunas frábær í sigri Litháa

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jonas Valanciunas átti frábæran leik í kvöld.
Jonas Valanciunas átti frábæran leik í kvöld. vísir/getty
Litháen varð í kvöld síðasta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum Evrópumótsins í körfubolta, EuroBasket, eftir 10 stiga sigur, 95-85, á Ítalíu.

Leikurinn var jafn og spennandi og úrslitin réðust ekki fyrr en í framlengingu.

Litháar voru þremur stigum yfir, 79-76, þegar rúm mínúta var eftir af venjulegum leiktíma en vítaskot frá Pietro Aradori og sniðsskot frá Dario Gallinari tryggðu Ítölum framlengingu.

Jonas Valanciunas skoraði fyrstu stig framlengingarinnar en Gallinari jafnaði strax í 81-81. En þá tóku Litháar yfir, skoruðu níu stig gegn tveimur Ítala og náðu sjö stiga forskoti, 90-83.

Þá forystu létu Litháar ekki af hendi og þeir fögnuðu á endanum 10 stiga sigri, 95-85, og sæti í undanúrslitunum þar sem þeir mæta Serbíu.

Sjá einnig: Serbar í undanúrslit eftir 14 stiga sigur á Tékkum

Valanciunas átti frábæran leik í liði Litháen en hann skoraði 26 stig og tók 15 fráköst. Þessi öflugi leikmaður Toronto Raptors í NBA-deildinni hitti úr 11 af 13 skotum sínum í leiknum.

Raunar var skotnýting Litháa frábær í kvöld en þeir hittu úr 54,0% skota sinna inni í teig og 61,0% af þriggja stiga skotum þeirra rötuðu rétta leið. Til samanburðar var þriggja stiga skotnýting Ítala aðeins 29,0%.

Jonas Maciulis átti einnig flottan leik í liði Litháa; skoraði 19 stig og tók 10 fráköst. Mantas Kalnietis stóð einnig fyrir sínu með 14 stig og 11 stoðsendingar.

Gallinari var stigahæstur í liði Ítala með 21 stig en Marco Belinelli kom næstur með 18 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×