Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Víkingur R. - Valur 0-1 | Bögild hetja Valsmanna | Sjáðu mark Vals

Smári Jökull Jónsson skrifar
Fyrri hálfleikur var fremur daufur og varnir liðanna þéttar. Sá síðari var aðeins fjörugri og umdeilt atvik átti sér stað á 62.mínútu þegar Bjarni Ólafur Eiríksson virtist brjóta á Milos Ozegovic sem var á leið í skyndisókn. Bjarni Ólafur var á rauðu spjaldi og var heppinn að fá að hanga inni á vellinum.

Sigurmarkið kom þegar um fimmtán mínútur voru eftir. Víkingar töpuðu boltanum klaufalega og Andri Adolphsson, sem var nýkominn inn sem varamaður hjá Val, gerði afar vel þegar hann prjónaði sig í gegnum vörn Víkinga. Hann lagði því næst boltann á Nicolas Bögild sem gat ekki annað en skorað.

Víkingar reyndu hvað þeir gátu til að jafna undir lokin en voru aldrei sérlega nálægt því að skora. Valsmenn fögnuðu því sætum sigri og eru komnir með þriggja stiga forystu á toppi Pepsi-deildarinnar.

Af hverju vann Valur?

Í raun má segja að mistök Víkinga hafi kostað þá stig í dag. Varnir liðanna höfðu staðið afar þéttar í leiknum fram að marki Bögild og það hefði verið erfitt að halda því fram að jafntefli hefðu verið ósanngjörn úrslit.

Valsmenn sýndu að þeir hafa á að skipa breiðum hóp og þrátt fyrir álag síðustu vikur þá náðu þeir í þrjú dýrmæt stig. Andri kom ferskur inn af bekknum með kraftinn sem á þurfti að halda.

Víkingar áttu erfitt með að finna leiðina framhjá varnarmönnum Valsara og það vantaði meiri gæði í sóknarleik þeirra á síðasta þriðjungi vallarins.

Hverjir stóðu upp úr?

Eiður Aron Sigurbjörnsson var mjög góður í vörn Valsliðsins í kvöld og stoppaði margar sóknir Víkinga á snyrtilegan hátt. Orri Ómarsson var fínn við hliðina á honum sömuleiðis en var í smá vandræðum með sendingarnar.

Þá átti Andri Adolphsson mjög góða innkomu og ógnaði vel með hraða sínum og áræðni. Hann gerði afar vel þegar hann lagði upp markið fyrir Bögild og það munar um það að geta sett öfluga leikmenn inn af bekknum.

Hjá Víkingum var Halldór Smári góður og Geoffrey Castillion var duglegur í framlínunni sem og Arnþór Ingi á miðjunni.

Hvað gekk illa?

Báðum liðum gekk oft á tíðum illa að skapa opin færi þó svo að vissulega hafi þau fengið tækifæri til að skora mörk. Leikmenn sem hafa verið öflugir sóknarlega hjá Valsmönnum, Dion Acoff og Sigurður Egill Lárusson, virtust frekar lúnir og náðu ekki að ógna með hraða sínum eins og þeir eru vanir að gera.

Víkingum gengur illa að losa sig við þessi klaufalegu mistök sem hafa kostað þá ansi mörg stig í sumar. Auðvitað kemst lið aldrei í gegnum heilan leik án þess að eitthvað klikki en mistökin sem Víkingar gerðu í kvöld kostuðu þá stig.

Hvað gerist næst?

Valsmenn eiga næst leik í Evrópukeppninni gegn Domzale frá Slóveníu. Þeir eiga erfitt verkefni fyrir höndum eftir 2-1 tap á heimavelli í fyrri leiknum. Næsti leikur þeirra í Pepsi-deildinn er síðan gegn Víkingum frá Ólafsvík.

Víkingar leik næst gegn KR á heimavelli í öðrum Reykjavíkurslag.

Víkingur (4-3-3): Róbert Örn Óskarsson 6 – Davíð Örn Atlason 5, Alan Lowing 6, Halldór Smári Sigurðsson 7, Ívar Örn Jónsson 4 – Dofri Snorrason 5 (´71 Ragnar Bragi Sveinsson), Milos Ozegovic 5, Arnþór Ingi Kristinsson 6 (´83 Veigar Páll Gunnarsson)– Alex Freyr Hilmarsson 6, Geoffrey Castillion 5, Erlingur Agnarsson 5

Valur (4-2-3-1): Anton Ari Einarsson 6 – Arnar Sveinn Geirsson 5, Orri Sigurður Ómarsson 6, Eiður Aron Sigurbjörnsson 8* Maður leiksins, Bjarni Ólafur Eiríksson 5 – Haukur Páll Sigurðsson (´19 Sindri Björnsson 5), Nicolas Bögild 6 – Dion Acoff 5 (´65 Andri Adolphsson 7), Guðjón Pétur Lýðsson 6, Sigurður Egill Lárusson 5 – Patrick Pedersen 6 (´81 Kristinn Ingi Halldórsson).

Logi: Rakið hugleysi hjá dómaranum að sleppa þessu
Logi Ólafsson þjálfari Víkingavísir/stefán
Logi Ólafsson þjálfari Víkinga var ósáttur með Ívar Orra Kristjánsson dómara í lok leiks sinna manna gegn Val í kvöld. Valsmenn unnu 1-0 sigur og eru komnir með þriggja stiga forystu á toppi Pepsi-deildarinnar.

„Ég held að það sé alveg klárt. Þetta er rakið hugleysi hjá dómaranum að sleppa þessu. Það hefði verið annað gula og þá er maðurinn útaf. Það breytir auðvitað öllu í leikjum, þegar svona mikið er eftir að vera einum fleiri,“ sagði Logi í samtali við Vísi eftir leikinn á Víkingsvelli í kvöld.

Atvikið sem hann á við var á 62.mínútu þegar Bjarni Ólafur Eiríksson leikmaður Vals virtist brjóta á Milos Ozegovic og hefði þá líklega átt að fá sitt annað gula spjald.

Fyrri hálfleikur var fremur daufur og liðin gáfu fá færi á sér. Sá síðari var öllu fjörugri en varnir liðanna stóðu vel og stundum á kostnað sóknarleiksins.

„Ég get nú ekki sagt að þetta hafi verið tilþrifalítið. Mér fannst þetta ágætis leikur og við vorum að spila gegn mjög góðu liði. Mér fannst leikurinn kaflaskiptur, þeir pressuðu mikið og við líka og þegar öllu er á botninn hvolft held ég að jafntefli hefði verið sanngjörn niðurstaða.“

Mark Vals kom á 76.mínútu eftir mistök hjá Ívari Erni Jónssyni. Andri Adolphsson var nýkominn inn sem varamaður hjá Val og fór illa með Ívar áður en hann lagði boltann á Nicolas Böglid sem skoraði.

„Við gerum mistök í markinu og gefum frá okkur boltann illa. Það getum við ekki leyft okkur á móti þeim,“ bætti Logi við.

Þetta var fyrsti tapleikur Víkinga í deildinni undir stjórn Loga en liðið hafði leikið sex leiki í Pepsi-deildinni án þess að tapa.

„Við einbeitum okkur bara að næsta verkefni og erum ekki að velta neinu öðru fyrir okkur,“ sagði Logi hinn rólegasti.

Félagaskiptaglugginn opnaði á ný þann 15.júlí og hefur Óttar Magnús Karlsson, fyrrum leikmaður Víkinga, verið orðaður við endurkomu til liðsins. Logi sagði ekkert í gangi í þeim málum.

„Það er ekkert ljóst hvað verður í leikmannamálum. Glugginn verður galopinn og við fylgjumst með hvað gerist þar,“ sagði Logi Ólafsson þjálfari Víkings að lokum.

Sigurbjörn: Erum gríðarlega ánægðir
Sigurbjörn og Ólafur Jóhannesson þjálfarar Vals.Vísir
Sigurbjörn Örn Hreiðarsson aðstoðarþjálfari Valsmanna var gríðarlega sáttur með stigin þrjú sem hans menn fengu í Fossvoginum í kvöld. Hann viðurkenndi að þetta hefðu verið afar sætur sigur.

„Heldur betur, þetta var frábært. Þetta var vel spilaður leikur hjá okkur fannst mér, við vorum þéttir og almennt góð holning á þessu,“ sagði Sigurbjörn við Vísi í leikslok.

Vörn Vals stóð sig afar vel í dag með Eið Aron Sigurbjörnsson í broddi fylkingar. Sigurbjörn var ánægður með varnarleik sinna manna.

„Við vissum að við værum að koma á erfiðan útivöll og Víkingarnir höfðu ekki tapað í síðustu sex deildarleikjum. Við þurftum að vera mjög þéttir í dag og þolinmóðir í að nýta okkar sénsa. Við fengum tækifæri og við erum gríðarlega ánægðir.“

Valsmenn léku Evrópuleik á fimmtudag og virtist sem sá leikur sæti aðeins í Valsliðinu. Breidd hópsins skilaði sér þó og til að mynda átti Andri Adolphsson mjög góða innkomu og lagði upp sigurmark Vals.

„Auðvitað situr þetta aðeins í mönnum. Sérstaklega því við erum búnir að spila tvo leiki á viku nokkuð lengi. Þó þetta sé gaman þá er þetta erfitt að mæta hörkuliðum í Pepsi-deildinn sem hafa hvílt í viku. Leikmennirnir voru mjög öflugir í dag, sýndu gott hugarfar og karakter.“

„Þetta getur Andri, hann er mjög öflugur í þessu og við vissum það. Þess vegna settum við hann inn,“ bætti Sigurbjörn við.

Haukur Páll Sigurðsson fór meiddur af  velli snemma leiks en Sigurbjörn hafði ekki alltof miklar áhyggjur af hans meiðslum.

„Hann er búinn að vera stífur og þetta tók sig aðeins upp. Það er ekkert verið að taka neina sénsa heldur tókum við hann útaf enda með fullt af leikjum framundan. Við erum með stóran hóp og auðvitað er slæmt að missa hann en við leystum þetta í dag.“

Patrick Pedersen lék sinn fyrsta leik í Valstreyjunni en hann gekk á ný til liðs við Valsmenn fyrir skömmu. Síðast þegar hann lék í deildinni skoraði hann nánast að vild og verður forvitnilegt að sjá hvernig hann kemur inn í Valsliðið.

„Hópurinn stækkar, Patrick er auðvitað frábær leikmaður og var einn af þeim 2-3 bestu þegar hann lék hérna síðast. Hann er búinn að vera úti í ár og kemur beittur heim. Hann er ekki búinn að spila heilan leik í nokkurn tíma og kærkomið fyrir hann að koma inn. Mér fannst hann gera vel og hann á eftir að skora,“ sagði Sigurbjörn að lokum.

Bjarni Ólafur: Risastig fyrir okkur
Bjarni Ólafur Eiríksson var heppinn að fjúka ekki útaf með rautt spjald í kvöld.Vísir/Vilhelm
Bjarni Ólafur Eiríksson átti ágætan leik fyrir Valsmenn þegar þeir lögðu Víkinga 1-0 í Fossvoginum í kvöld. Bjarni má þó teljast heppinn að hafa fengið að klára leikinn en Víkingar vildu meina að hann hefði átt að fá sitt annað gula spjald snemma í síðari hálfleik.

„Ég veit það ekki, dómarinn dæmdi ekkert og ég hef ekkert um þetta að segja. Ég lyfti bara upp höndunum eftir brotið en ég vill ekki vera að tjá mig um þetta,“ sagði Bjarni Ólafur í samtali við Vísi eftir leik.

Sigur Vals var kærkominn enda ná þeir þriggja stiga forystu á toppi deildarinnar með sigrinum.

„Ótrúlega sætt og frábært að vinna hérna. Þessi þrjú stig eru risastig fyrir okkur. Það er svolítið síðan við unnum í deildinni og ég er ótrúlega glaður með þetta,“ bætti Bjarni Ólafur við.

„Það sat aðeins í okkur þessi Evrópuleikur en við erum með mannskap til að eiga við þetta álag og mér fannst við sýna það í dag,“ sagði Bjarni Ólafur að lokum.

Halldór Smári: Mistök og hugsunarleysi kosta mark
Halldór Smári var góður í vörn Víkinga í dagVísir/Daníel
Halldór Smári Sigurðsson átti góðan leik í vörn Víkinga í dag gegn Valsmönnum. Það dugði þó ekki því Víkingar lutu í gras eftir mark Nicolas Bögild á 76.mínútu leiksins.

„Enn og aftur eru það mistök og hugsunarleysi sem orsaka það að við erum að fá á okkur mörk. Þetta er rosalega svekkjandi því við vorum búnir að vera traustir. Þetta er mjög sárt,“ sagði Halldór Smári við Vísi eftir leikinn í kvöld.

„Við þurfum að hreyfa boltann hraðar og þora meira. Við erum stundum of ragir að gera eitthvað, taka menn á og gera eitthvað öðruvísi. Við megum gera meira af því,“ bætti Halldór Smári við.

Það var ekki sérlega mikið um opin færi þó bæði lið hafi vissulega fengið tækifæri til að skora. Halldór Smári bjargaði til dæmis í tvígang vel þegar Valsmenn gerðu sig líklega.

„Við héldum þeirra hættulegu mönnum vel niðri. Mér fannst við mjög öruggir og að standa okkur vel en svo þarf bara eitt augnablik svo allt fari í vaskinn,“ sagði Halldór Smári og bætti við að það hefði breytt miklu hefðu Valsmenn klárað leikinn einum færri eins og Víkingar vildu meina að þeir hefðu átt að gera.

„Ég held það 100%. Haukur Páll fór auðvitað útaf snemma og hann er mjög mikilvægur fyrir þá. Ef Bjarni Ólafur hefði líka fokið útaf í þokkabót þá held ég að það hefði breytt heilmiklu,“ sem vildi lítið segja um það hvort ákvörðun dómarans hefði verið rétt.

Leikurinn var sá fyrsti sem tapast undir stjórn Loga Ólafssonar í Pepsi-deildinni.

„Við þurfum bara að halda áfram. Við höfum sýnt að við getum þetta allt saman. Við þurfum að fækka mistökunum og gera fleiri mörk,“ sagði varnarmaðurinn Halldór Smári Sigurðsson að lokum.

vísir/andri marinó

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira