Enski boltinn

Vaknaðir af draumi og fastir í martröð

Leicester liðið
Leicester liðið Vísir/Getty
Auðvitað bjóst enginn við að Leicester myndi endurtaka afrekið frá því í fyrra. Stóru liðin styrktu sig gríðarlega í sumar á meðan meistararnir seldu sinn langbesta mann, N´Golo Kante. Það bjóst heldur enginn við að þeir myndu falla. En staðan er orðin þannig að nú eru meistararnir á góðri leið með það. Hver er ástæðan fyrir falli meistaranna? Stórt er spurt.

Stærsta ástæðan er auðvitað brotthvarf Kante, sem fór til Chelsea. Það var stundum sagt að með Leicester spiluðu 12, því Kante er á við tvo. Hann verndaði meðalmennina Robert Huth og Wes Morgan svo vel að þeir litu út fyrir að vera stórkostlegir allt síðasta tímabil. Varnarleikurinn hefur verið í molum frá því Kante hvarf á brott, liðið hefur fengið á sig 43 mörk það sem af er, en allt tímabilið í fyrra fékk liðið á sig 36. Claudio Ranieri, stjóri Leicester, keypti þrjá menn til að reyna að fylla skarð Kante, það hefur ekkert gengið. En Kante var ekki bara frábær í varnarvinnunni, hann leyfði líka mönnum frammá við að fá aukið svigrúm.

Þar voru þeir Jamie Vardy og Riyad Mahrez og samleikur þeirra var miklu meira en bara augnakonfekt. Það var eins og þeir gætu ekki gert nein mistök – ekki frekar en liðið sjálft. Á þessu tímabili er sagan öðruvísi. Vardy hefur ekki átt skot á markið síðan 17. desember og þeir félagar spiluðu átta leiki í röð þar sem þeir gáfu hvor á annan tvisvar sinnum. Tvisvar sinnum. Það er auðvitað með ólíkindum.

Mahrez daðraði við að fara í sumar eins og Vardy en hvorugur var seldur. Trúlega voru þeir farnir til stærri liða í höfðinu því hvorugur hefur verið svipur hjá sjón, ekki frekar en liðið sjálft.

Einnig verður að segjast að það vilja allir vinna meistarana. Og leikskipulag Leicester var nú ekki ýkja beysið. Ranieri lét sitt lið bíða til baka, lét mótherjana  koma á sitt lið. Þar var Kante. Hann vann boltann, sendi á Mahrez sem kom Vardy í gegn sem skoraði. Þetta var ekki flókin uppskrift en hún svínvirkaði.

Núna er öldin önnur. Leicester er eina liðið sem hefur ekki skorað deildarmark á árinu 2017 og þá eru allar deildir teknar með í Englandi. Og það er verið að tala um sjálfa Englandsmeistarana. Ranieri hefur einnig verið að hringla með liðið sem er aldrei góð ávísun á gott gengi. Hann gerði 33 breytingar allt tímabilið í fyrra en í ár hefur hann þegar gert 52 breytingar. Hann notaðist við 23 leikmenn allt síðasta tímabil en nú þegar hafa 24 leikmenn stigið inn á völlinn fyrir liðið.

Vinni Hull, Crystal Palace og Sunderland sína leiki um næstu helgi verður Leicester í fallsæti þegar liðið mætir Liverpool, þann 27. febrúar. Auðvitað er Sunderland langlíklegasta liðið til að falla, sé miðað við spilamennsku þess að undanförnu. Hull og Swansea eru með nýja stjóra sem eru að gera góða hluti og Crystal Palace og Middlesborough eru að kroppa í stig hér og þar. Eina liðið í fallbaráttunni sem er að ströggla við að ná í stig er Leicester. Síðasti sigurleikur liðsins kom á gamlársdag. Sama dag kom einnig síðasta markið þeirra. Manchester City er eina liðið sem hefur fallið sem ríkjandi meistari, það var árið 1938.

Auðvitað er ekki einn maður orsök þessa háa falls Leicester. Hvort aðrir leikmenn séu ekki að æfa af jafn miklu kappi og áður, séu sáttari við að fá feitari launaávísun eða hvort óákveðni Ranieris sé um að kenna er erfitt að svara. Eina sem er vitað er að Leicester, Englandsmeistararnir, eru á góðri leið með að falla úr deild þeirra bestu. Níu mánuðum eftir að draumi þeirra lauk eru þeir vaknaðir og eru fastir í martröð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×