Innlent

Vagnstjóri Strætó sagði upp vegna öryggismyndavélar

Stefán Árni Pálsson skrifar
Reynir Jónsson, framkvæmdarstjóri Strætó.
Reynir Jónsson, framkvæmdarstjóri Strætó. visir/stefán
„Eftirlitsmyndavélarnar eru ekki orðnar virkar en eru komnar í alla vagna,“ segir Reynir Jónsson, framkvæmdarstjóri Strætó. Fram kom í frétt Vísis á síðasta ári að fyrirhugað væri að setja upp öryggismyndavélar í alla strætisvagna við reglubundna endurnýjun þeirra. Nú er sú vinna á lokastigi.

„Kerfið verður formlega gangsett á næstu vikum. Við höfum verið að kynna þetta fyrir vagnstjórum okkur að undanförnu og það ríkir almenn ánægja með kerfið. Þetta hefur verið unnið í mikilli sameiningu við vagnstjórana,“ segir Reynir.

Reykjavík Vikublað greindi frá því á dögunum að Strætó hefði sent bréf til vagnstjóra sinna sem ekki hefði mælst vel fyrir. Þar var bent á að fyrir lægi að setja upp öryggismyndavélar í vögnunum og vagnstjórum bent á að þeir gætu andmælt því. Myndu þeir nýta sér andmælarétt sinn yrði þeim hins vegar sagt upp störfum.

Reynir segir í samtali við Vísi að einn vagnstjóri hafi sagt upp í kjölfarið en ekki hafi borið á athugasemdum frá öðrum vagnstjórum.

Reynir sagði í viðtali við Vísi á sínum tíma að dæmin sýndu að öryggismyndavélar gætu komið að gagni en ofbeldi beindist að vagnstjórum og farþegum í vaxandi mæli.

Í frétt um málið í mars á síðasta ári sagði Reyni;

Það hefur komið upp að vagnstjórar hafa orðið fyrir árás, allt frá því að kastað er yfir þá hveiti yfir í að þeim sé ógnað með vopni. Síðan er alltaf þetta hefðbundna skítkast á vagnstjórana við lýði. Þeir eru kallaðir aumingjar og þar fram eftir götunum. Oftast eru þetta drukknir einstaklingar eða fólk í annarlegu ástandi en þetta er þá liður í því að bregðast við þessari þróun.“

Í flestum nágrannalöndum eru öryggismyndavélakerfi í strætisvögnum.


Tengdar fréttir

Verður sagt upp nýti þeir sér andmælarétt

Strætó sendi nýverið bréf til vagnstjóra sinna þar sem þeim var tilkynnt að til stæði að koma fyrir myndavélabúnaði í strætisvögnum fyrirtækisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×