Innlent

Vafasöm viðskipti Vegagerðarinnar

Bjarki Ármannsson skrifar
Vegagerðin er sú stofnun hins opinbera sem kaupir hvað mest af þjónustu frá einkaaðilum ár hvert.
Vegagerðin er sú stofnun hins opinbera sem kaupir hvað mest af þjónustu frá einkaaðilum ár hvert. Vísir
Erfitt er að sjá að viðskipti nokkurra einkafyrirtækja við Vegagerð ríkisins á síðustu árum standist lög eða siðareglur stofnunarinnar. Dæmi eru um að starfsmenn Vegagerðarinnar hafi gert viðskiptasamninga, sem samtals nema á sjöunda hundrað milljónir króna, við ættingja, maka og jafnvel sig sjálfa.

Þetta kemur fram í umfjöllun Kastljóss á RÚV nú í kvöld. Viðskipti Vegagerðarinnar í þremur tilfellum voru þar skoðuð sérstaklega, en Vegagerðin er sú stofnun hins opinbera sem kaupir hvað mest af þjónustu frá einkaaðilum ár hvert.

Samningar gerðir við bróður deildarstjóra án útboðs

Í fyrsta lagi voru teknir fyrir samningar við fyrirtækin Samrás og Fjarorku, sem hafa á síðustu árum átt viðskipti við Vegagerðina fyrir rúmar 400 milljónir króna. Guðlaugur Jónasson er eigandi að báðum þessum fyrirtækjum en bróðir hans, Nicolai Jónasson, er deildarstjóri þjónustudeildar Vegagerðarinnar. Öll viðskipti við Samrás og Fjarorku hafa farið í gegnum þessa þjónustudeild og ekkert þeirra hundruða verka sem Vegagerðin hefur falið fyrirtækjunum tveimur frá árinu 2005 var boðið út.

Þá segir jafnframt í umfjöllun RÚV að Nicolai hafi unnið að þróunarvinnu með bróður sínum og fyrirtækjum hans samhliða því að eiga í samskiptum við hann vegna framkvæmdar viðskiptanna við Vegagerðina. Þess má geta að opinberum starfsmönnum er bannað að koma að viðskiptum við ættmenni sín, eða umfjöllun um þau, samkvæmt siðareglum Vegagerðarinnar. Þá kveða lög um opinber innkaup á um það að öll viðskipti yfir 11,5 milljónum skuli boðin út, en viðskiptin við Fjarorku og Samrás voru í nokkrum tilfellum langt yfir þeim mörkum.

Fyrirtæki fyrrverandi starfsmanns fyrir valinu

Einnig var í þættinum fjallað um greiðslur Vegagerðarinnar til verktakafyrirtækisins Hnjóts hf. Hnjótur var lengi í eigu Magnúsar Guðbjartssonar, fyrrverandi starfsmanns Vegagerðarinnar á Suðvestursvæði, sem kemur enn fram sem talsmaður fyrirtækisins í samskiptum við Vegagerðina. Þrjú fyrirtæki tengd Magnúsi hafa fengið 205 milljónir króna fyrir ýmis verk sem ekki voru boðin út.

Einstaka greiðslur til þessara fyrirtækja eru að vísu ekki það háar að Vegagerðinni hafi þurft að bjóða framkvæmdirnar út lögum samkvæmt. Þó furðast keppinautar Hnjóts sig á því að engin útboð eða verðkannanir hafi farið fram og hafa sumir gert athugasemdir við þau. Enginn verktaki hefur unnið jafn mörg verk fyrir Vegagerðina og Hnjótur á þessu Suðvestursvæði á undanförnum árum.

Samdi við sitt eigið fyritæki um ræstingar

Kaup Vegagerðarinnar á ræstingarþjónustu fyrir útibú stofnunarinnar í Hafnarfirði eru ekki síður athyglisverð. Ræstingar húsnæðis Vegagerðarinnar í Hringhellu hafa frá árinu 2007 verið í höndum Höllu Rúnar Ólafsdóttur og síðar fyrirtækisins HRÓ slf. Vegagerðin hefur greitt um tíu milljónir króna til þessara aðila fyrir þessa þjónustu. Deildarstjóri þessa útibús er Bjarni Stefánsson, eiginmaður Höllu og meðeigandi hennar í HRÓ.

Bjarni hefur á þessum tíma haft umsjón með kaupum á ræstingarþjónustu frá eigin fyrirtæki og átt í samskiptum við konu sína sem fulltrúi Vegagerðarinnar um þessi kaup. Hann tilkynnir Höllu eiginkonu sinni í tölvupósti árið 2011 að Vegagerðin hafi ákveðið að segja upp samningi við fyrirtæki þeirra beggja, þakkar henni fyrir samstarfið og tilkynnir henni um að fyrirtækið geti gert tilboð í verkið.

HRÓ gerði vissulega tilboð í verkið og var það samþykkt á fundi Vegagerðarinnar, þar sem Bjarni sat, stuttu síðar. Það var litlu lægra en tilboð ræstingarfyrirtækisins Hreint, sem sendi inn tilboð sitt tveimur dögum fyrir fundinn. Tilboð HRÓ var að sögn Vegagerðarinnar lagt fram munnlega og því liggur ekki fyrir hvort það barst áður en Bjarni fékk í hendur tilboð keppinauta fyrirtækis síns og konu sinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×