Innlent

Vætutíð veldur búsifjum

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Gunnlaugur Karlsson framkvæmdastjóri Sölufélags Garðyrkjumanna býst við seinkun á uppskeru ef framhald verður á vætutíð.
Gunnlaugur Karlsson framkvæmdastjóri Sölufélags Garðyrkjumanna býst við seinkun á uppskeru ef framhald verður á vætutíð. Skjáskot/Stöð 2
Ýmsar atvinnugreinar eru farnar að fá að kenna á rigningunni í sumar á Suðvesturlandi. Gunnlaugur Karlsson framkvæmdastjóri Sölufélags Garðyrkjumanna býst við seinkun á uppskeru ef framhald verður á og Már Guðmundsson formaður málarameistara segir vætutíðina hafa haft veruleg áhrif á afkomu í greininni. Þeir muna varla eftir annarri eins vætutíð. 

Frá upphafi mælinga hefur aldrei mælst eins mikil úrkoma í Reykjavík og í maí. Það sem af er júní hefur nánast rignt uppá hvern einasta dag og lítið lát virðist ætla að vera á því næstu daga samkvæmt Veðurstofu Íslands.

Gunnlaugur Karlsson framkvæmdastjóri Sölufélags Garðyrkjumanna segist varla muna eftir öðru eins. Vætutíðin hafi mikil áhrif.

„Þetta hefur gríðarleg áhrif. Minna auðvitað hjá þeim sem rækta með lýsingu sem geta stýrt hitastigi og birtu hjá sér. En þeim meiri á þá sem stunda útirækt,“ segir Gunnlaugur.

Hann segir að  mikill klaki í jörðu í vor, vætutíð í sumar og næturkuldi í júní seinki vonandi ekki uppskerunni um meira en hálfan mánuð. Ef sólin fari að skína þurfi rigningartíðin ekki heldur að hafa nein áhrif. Góður veðurkafli geti gjörbreytt uppskeruhorfum. En veðrið hafi einnig áhrif á fæðuval fólks.

„Fólk borðar öðruvísi þegar veðrið er slæmt. Það t.d. hægir á sölu á jarðaberum og tómötum ef það er þungbært. Þannig að við í garðyrkjunni vonumst til að landsmenn fari nú að borða meira grænmeti og þá láti sólin sjá sig,“ segir Gunnlaugur og brosir.

Áhrif á fleiri atvinnugreinar

Már Guðmundsson formaður Málarameistarafélagsins er sama sinnis og Gunnlaugur og man vart eftir öðru eins. Þá hafi vætutíðin haft mikil áhrif í sinni iðngrein. Málarameistarar hafi ekki getað byrjað á verkefnum eða lokið þeim vegna rigningar. Það hafi síðan  haft mikil áhrif á afkomu í greininni. Ef fram haldi sem horfi sé hætta á að verkefni klárist ekki fyrir veturinn.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×