Innlent

Vætusamt í næstu viku en hlýnar á Norðurlandi

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Svona lítur veðurkortið út fyrir kvöldið.
Svona lítur veðurkortið út fyrir kvöldið. Vísir/Vedur.is
Veður hefur verið með besta móti undanfarnar vikur og sjá landsmenn margir hverjir glitta í sumar. Í næstu viku hlýnar á Norðurlandi en spáð er mun minni sól en undanfarið auk þess sem bætir í rigningu.

Í dag, sunnudag, verður norðvestan átta til þrettán stig norðaustan til og dálítil rigning og jafnvel slydda við ströndina. „Annars hægari vindur, skýjað með köflum eða bjartviðri og stöku skúrir, einkum síðdegis, en léttskýjað suðaustantil. Fremur hæg breytileg átt í nótt og skýjað með köflum,“ segir á vef Veðurstofunnar. Hlýjast verður suðvestan til í dag eða þrjú til fjórtán stig.

„Suðlæg átt á morgun fimm til tíu stig. Skýjað og dálítil rigning með köflum um landið vestanvert, en þurrt og bjart austantil.“ Hiti verður sjö til fimmtán stig á morgun, hlýjast norðaustantil.

„Ákveðin norðvestan átt og dálítil rigning eða slydda norðaustantil á landinu í dag og svalt í veðri, en annars hægari vindur og víða þurrt og bjart. Umbreyting verður á veðrinu á morgun, en þá snýst í suðlæga átt með dálítilli vætu vestantil á landinu, en léttir til og hlýnar ört norðaustantil,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga: 

Á mánudag: Fremur hæg suðlæg átt og léttskýjað með köflum á A-verðu landinu, en dálítil væta suðvestan- og vestantil. Suðaustan 8-13 og rigning V-lands um kvöldið. Hiti yfirleitt 5 til 10 stig.

Á þriðjudag og miðvikudag: Sunnan og suðvestan 8-15 m/s og rigning um landið vestanvert, en heldur hægari og þurrt og bjart norðaustan- og austanlands. Hiti 8 til 16 stig, hlýjast NA-til.

Á fimmtudag: Suðvestanátt og bjartviðri um landið austanvert, en annars smáskúrir. Hiti 7 til 14 stig, hlýjast fyrir austan.

Á föstudag og laugardag: Sunnan átt og víða dálítil rigning, en úrkomulítið austantil. Hlýtt í veðri, einkum norðaustantil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×