Innlent

Útvarpsgjaldið er óvissuþáttur

Hanna Ólafsdóttir skrifar
Ingvi Hrafn Óskarsson, formaður stjórnar RÚV, segir að aðhalds verði áfram gætt.
Ingvi Hrafn Óskarsson, formaður stjórnar RÚV, segir að aðhalds verði áfram gætt.
„Það liggja ekki fyrir ákvarðanir um uppsagnir að svo stöddu. Það er hins vegar óvissuþáttur í þessu sem er niðurstaðan á fjárlögum. Það er einn lykilþáttur í rekstri félagsins hvernig útvarpsgjaldinu er stillt upp. Það er núna til skoðunar,“ segir Ingvi Hrafn Óskarsson, formaður stjórnar RÚV, aðspurður hvort fyrirhugaðar séu uppsagnir á starfsfólki til að bregðast við fjárhagsvanda félagsins.

Ríkisútvarpið átti ekki fyrir greiðslu af skuldabréfi sem var á gjalddaga í dag og hefur því verið samið um að fresta gjalddaga um þrjá mánuði. Félagið er yfirskuldsett og nema skuldir RÚV 5,5 milljörðum króna, stærstur hluti þeirra vegna lífeyrissjóðsskuldbindinga félagsins.

Ingvi Hrafn segir ekki hægt að ætla annað en að hægt verði að borga skuldina að fresti liðnum. „Félagið er auðvitað gjaldfært, það er engin spurning um það. Við erum með samkomulag við kröfuhafa.“

Fram undan er þó áframhaldandi aðhald í rekstri, auk þess sem unnið er að sölu eigna RÚV, meðal annars lóða og fasteigna.

Ingvi Hrafn segir að ef fyrirætlanir um að lækka útvarpsgjaldið verulega miðað við það sem verið hefur verði að veruleika, þurfi að endurskoða lögbundin verkefni RÚV. „Hlutverk RÚV er skilgreint mjög rækilega í lögum og ef menn ætla að skera niður þjónustutekjurnar er eðlilegt að þeir ákveði í leiðinni hvaða þjónustu á að fella niður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×