Skoðun

Útúrsnúningar Landsvirkjunar um verð

Þorsteinn Þorsteinsson skrifar
Magnús Þór Gylfason, yfirmaður samskiptasviðs Landsvirkjunar, svarar nýlega grein minni, „Pyrrhosar­sigrar í orkusamningum“. Hann leggur áherslu á mikilvægi þess að réttum staðreyndum um orkuverð sé haldið til haga.

Það flokkast hins vegar undir útúrsnúning hjá Magnúsi að taka einungis hálfa setningu út úr grein minni og gera hana að aðalatriði. Setningarhlutinn sem Magnús velur að gagnrýna er þessi:

„Þannig hefur Landsvirkjun t.d. hækkað raforkuverð undanfarið um tugi prósenta á matvælaframleiðendur og ýmiss konar iðnfyrirtæki…“ en Magnús gætir þess að tjá sig ekki um framhaldið: „…á sama tíma og orkuverð í nágrannalöndum hefur lækkað um 54% til 75%“.

Magnús forðast greinilega að tala um samanburðinn við nágrannalöndin enda er hann Landsvirkjun ekki hagfelldur. Það er dapurleg aðferðafræði þegar menn eru uppiskroppa með mótrök, að taka hlutina úr samhengi og leggja áherslu á allt annað en inntakið.

Eitt er að taka grein mína úr samhengi en verra er þegar meðaltalsútreikningar eru notaðir til að slá ryki í augu lesenda. Magnús gengur jafnvel svo langt að taka út árið 2007 eitt og sér til samanburðar til að fegra málflutning sinn, sem verður að teljast afvegaleiðandi. Er þetta trikk kannski dæmi um hið hárómaða samtal við þjóðina sem Landsvirkjun hefur svo mikið talað um undanfarið?

Fyrrnefndir meðaltalsútreikningar Magnúsar hjálpuðu t.d. Ölgerðinni lítið þegar við fyrirtækinu blasti 17% hækkun á raforkuverði sem afleiðing af verðstefnu Landsvirkjunar. Í fjölmiðli 16. júní sl. kom m.a. eftirfarandi fram um umrædda hækkun: „Rafmagnsreikningur Ölgerðarinnar, eins stærsta matvörufyrirtækis landsins, hefur hækkað um 17% á milli ára, eða tífalt meira en almennt verðlag í landinu. Fyrirtækið kaupir raforkuna af Fallorku og hefur Ölgerðin fengið þær upplýsing­ar frá seljanda að heildsalinn, Landsvirkjun, hafi hækkað meðalverð í skammtímasamningum um 40%“.

Það er m.a. þessi framganga Landsvirkjunar sem grein und­ir­ritaðs tekur mið af. Í því samhengi er ágætt að rifja upp að eitt helsta verkefni eiganda Landsvirkjunar er að halda verðbólgu í skefjum. Það verkefni virðist ekki vera á stefnu­skrá Landsvirkjunar ef mið er tekið af ofangreindri hækkun. Inntakið í grein minni var m.a. að benda á þetta misræmi og Magnúsi hefði verið sæmra að miða svar sitt við það.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×