Innlent

Útsýnisflug yfir Holuhraun gríðarlega vinsælt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eldgosið er magnað sjónarspil og hefur vakið mikla athygli erlendis.
Eldgosið er magnað sjónarspil og hefur vakið mikla athygli erlendis. Vísir/Auðunn
Ferðaskrifstofur eru byrjaðar að bjóða upp á útsýnisflug yfir eldgosið í Holuhrauni. Eldgosið hefur vakið mikla athygli enda um magnað sjónarspil að ræða. Ferðaskrifstofan Extreme Iceland býður upp á ferðir frá Reykjavík og Akureyri, og kostar 100.000 krónur á mann að fara frá Reykjvík en 45.000 að fara frá Akureyri. Saga Travel á Akureyri býður einnig upp á ferðir þaðan og kostar flugið 60.000 krónur á mann.

Leiðin að Öskju er lokuð en ferðamenn geta skoðað eldstöðina úr lofti.Vísir/GVA
Yfir 100 fyrirspurnir á tveimur dögum

„Þetta er mjög vinsælt á meðal erlendra ferðamanna og við höfum fengið yfir 100 fyrirspurnir á seinustu tveimur dögum,“ segir Kári Björnsson, framkvæmdastjóri Extreme Iceland.

Hann segir allan gang á því hversu margar ferðir séu farnar á dag, það fari eftir hversu vel fyrirtækinu gangi að finna flugvélar fyrir verkefnið. Þá sé búið að fara í svipað margar ferðir frá Reykjavík og Akureyri.

Sævar Freyr Sigurðsson hjá Saga Travel tekur undir það að eftirspurnin sé mikil.

„Við erum að bjóða upp á þessar ferðir bæði vegna þess að leiðin inn að Öskju er lokuð og svo auðvitað vegna eldgossins. Það er flogið yfir Öskju, Holuhraun og Bárðarbungu. Öryggið er að sjálfsögðu alltaf sett á oddinn og farið algjörlega að öllum reglum hvað varðar lokanir á svæðinu og þess háttar,“ segir Sævar.

Að hans sögn hafa fyrirspurnir bæði komið frá einstaklingum og ferðaþjónustuaðilum. Aðallega er um að ræða erlenda ferðamenn þó eitthvað af Íslendingum hafi slæðst með.




Tengdar fréttir

Aflétta lokun í Holuhrauni

Lögreglustjórinn á Húsavík, í samvinnu við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, hefur ákveðið að aflétta innri lokun í Holuhrauni og munu vísindamenn og fjölmiðlar á svæðinu geta farið aftur að gosstöðvunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×