Körfubolti

Útskúfuð úr WNBA þar sem hún var gagnkynhneigð

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Wiggins í leik í WNBA-deildinni.
Wiggins í leik í WNBA-deildinni. vísir/getty
Candice Wiggins segir að það hafi verið hræðileg reynsla fyrir sig að spila í WNBA-deildinni þar sem 98 prósent leikmanna séu lesbíur sem líki ekki við gagnkynhneigðar stelpur.

Wiggins hætti að leika í deildinni í fyrra en þá var hún aðeins 29 ára. Hún sagðist einfaldlega ekki hafa getað meira.

„Ég vildi spila í tvö ár í viðbót en andlega hliðin hefði ekki höndlað það. Það er þunglynd stemning í WNBA. Það er enginn að horfa á okkur og verðmæti okkar ekki hátt. Þetta getur verið erfitt og ég var ekki hrifinn af menningunni í deildinni. Andinn þarna var eitur fyrir mig og ég brotnaði andlega,“ sagði Wiggins sem var valin þriðja í nýliðavalinu á sínum tíma og var í meistaraliði deildarinnar árið 2011.

Wiggins segist hafa fengið slæma meðferð hjá meirihluta leikmanna deildarinnar frá því hún kom inn í deildina. Hún segir að það megi að stóru leyti skrifa á að hún sé gagnkynhneigð, ólíkt flestum leikmönnum deildarinnar.

„Að ég væri gagnkynhneigð og talaði mikið um það var stórt mál. Ég myndi segja að 98 prósent leikmanna í WNBA séu samkynhneigðar. Það voru ekki sömu reglur fyrir mig og hinar.

„Stelpurnar voru stöðugt að reyna að meiða mig viljandi. Ég hef aldrei verið kölluð „bitch“ eins oft um ævina eins og fyrsta árið mitt í deildinni. Mér hefur heldur aldrei verið eins oft kastað niður í parketið. Skilboðin voru skýr: Við viljum að þú vitir að okkur líkar ekki við þig.“

Wiggins spilaði með Tulsa, Los Angeles og New York eftir fimm ár í Minnesota. Hún segir það ekki vera auðvelt að segja sína skoðun á því hvernig hlutirnir gangi fyrir sig í deildinni.

„Ég er að reyna að passa mig og vil ekki eyðileggja drauma einhverra sem vilja komast í deildina. Helst myndi ég vilja að allt væri frábært þar en ég verð að vera heiðarleg með mína upplifun.“

Forráðamenn WNBA-deildarinnar hafa ekki viljað tjá sig um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×