Innlent

Útlit fyrir þrumur og eldingar í dag

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Síðdegis í dag verður nær samfelld rigning norðan- og austanlands en sunnan- og vestanlands er möguleiki á dembum.
Síðdegis í dag verður nær samfelld rigning norðan- og austanlands en sunnan- og vestanlands er möguleiki á dembum. Vísir/Getty
Veðurstofan reiknar með að norðaustlægar áttir verði ríkjandi næstu daga. Síðdegis í dag verður nær samfelld rigning norðan- og austanlands en sunnan- og vestanlands er möguleiki á dembum auk þess sem útlit er fyrir þrumur og eldingum.

Norðan- og austanlands má búast við talsverðri rigningu á köflum en sunnan- og vestanlands byggjast smám saman upp allgóðir skúraklakkar með dembum þegar líður á daginn og gæti þeim fylgt þrumur og eldingar.

Um helgina dregur úr vindi og úrkomu en í nótt og á morgum má búast við ákveðinni norðan- og norðaustan átt á landinu. Rigning norðan- og austanlands, en þurrt að mestu sunnan og vestantil á landinu, en skúrir gætu fallið á stöku stað.

Veðurhorfur á landinu

Austan og norðaustan 3-10 metrar á sekúndu, en bætir í vind þegar líður á daginn, 8-15 í nótt og á morgun, hvassast norðvestan- og vestantil og á annesjum norðanlands. Víða skúrir, einkum síðdegis, en fer að rigna norðan- og austanlands þegar líður á daginn og sums staðar talsverð rigning um tíma austantil á landinu. Áfram skúrir eða rigning á morgun, en þurrt að kalla um landið suðvestanvert. Hiti 7 til 16 stig, hlýjast sunnan- og vestanlands.

Á föstudag:

Norðlæg átt 8-15 metrar á sekúndu, hvassast norðvestan- og vestantil. Þurrt að mestu á Suður- og Vesturlandi, en rigning eða talsverð rigning um landið norðaustanvert. Hiti 7 til 16 stig, hlýjast sunnanlands.

Á laugardag:

Minnkandi norðan átt og víða skúrir, en þurrt að mestu suðvestanlands fyrripart dags. Áfram milt í veðri.

Á sunnudag:

Norðan og norðvestan 3-8 metrar á sekúndu. Skýjað og lítilsháttar væta norðaustantil á landinu. Bjart með köflum sunnan- og vestanlands og síðdegisskúrir á stöku stað. Hiti frá 6 stigum við norðurströndina, upp í 16 stig á Suðurlandi.

Á mánudag:

Fremur hæg norðlæg eða breytileg átt. Skýjað og þurrt að mestu norðan- og austanlands. Annars bjartviðri, en líkur á síðdegisskúrum. Hiti breytist lítið.

Á þriðjudag og miðvikudag:

Hæg breytileg átt eða hafgola. Skýjað með köflum og víða skúrir, einkum síðdegis. Hiti yfirleitt á bilinu 9 til 15 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×