Viðskipti innlent

Útlit fyrir alvarlegan vatnsskort í heiminum 2030

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Horfur eru á alvarlegum skorti á vatni í heiminum árið 2030 en málið virðist þó ekki vera forgangsmál stjórnvalda á Vesturlöndum. Ef vatnsverð hækkar gæti orðið arðbært fyrir Íslendinga að flytja út vatn, að mati hagfræðings. Alþjóðleg stórfyrirtæki hafa á síðustu árum eytt 84 milljörðum dollara til að stýra betur vatnsbirgðum sínum.

Af öllum vatnsbirgðum heimsins eru 97,5 prósent höfin og aðeins 2,5 prósent ferskvatn. Alþjóðanátt­úru­vernd­ar­sam­tök­in The In­ternati­onal Uni­on for Conservati­on of Nature birtu skýrslu árið 2009 þar sem kom fram spá um að tveir þriðju­ hlut­ar heims­byggðar­inn­ar myndu búa við vatsns­skort árið 2025. Um svipað leyti birtu Sameinuðu þjóðirnar spá um að þrír milljarðar manna yrðu án vatns það ár.

Klukkan tifar og það eru ellefu ár þangað til að þessi raunveruleiki blasir við. Í raun flýtur heimsbyggðin sofandi að feigðarósi þegar vatnsskorturinn er annars vegar því stjórnvöld á Vesturlöndum hafa ekki brugðist við með afdráttarlausum hætti.

Mannkyninu fjölgar gríðarlega vegna veldisvaxtar

Í ítarlegri fréttaskýringu sem birtist í Financial Times um vatnsskortinn í heiminum kemur fram að búist sé við að mannkynið verði 8 milljarðar árið 2030 en telur 7 milljarðar í dag. Vegna veldixvaxtar fjölgar mannkynið sér á gríðarlegum hraða eins og sést á þessari töflu (sjá myndskeið). Til glöggvunar er ágætt aðhafa hugfast að mannkynið taldi aðeins 1 milljarð um aldamótin 1800.

Í Financial Times kemur fram að heimurinn muni glíma við alvarlegan vatnsskort árið 2030. Þetta er auðvitað mjög farstæðukennd í augum Íslendinga sem búa við gnægð ferskvatns og ekki fyrirséð að það breytist í fyrirsjáanlegri framtíð.

Í fréttaskýringunni kemur fram að stórfyrirtæki sem starfa þvert á landamæri leiði tækninýjungar við bætta stýringu vatns vegna vatnsskortsins sem er þegar farinn að hafa bein áhrif á rekstur þeirra. Alþjóðleg stórfyrirtæki eins og Google, Nestlé og Coca Cola hafa eytt samtals 84 milljörðum dollara á síðustu árum við bætta stýringu ferskvatns.

Hins vegar sé lausn á vatnsskortinum að miklu leyti í höndum ríkisstjórna, ekki fyrirtækja því hún krefjist betri stefnumótunar eins og betra regluverks um stýringu veituvatns og snjallari notkunar á frárennslisvatni.

Arðbært að flytja út vatn þegar eftirspurn eykst og verð hækkar

Heiðar Guðjónsson hagfræðingur er mikill áhugamaður um auðlindastýringu í stóra samhengi hlutanna. Hann skrifaði bókina Norðurslóðasókn á um tækifæri Íslands á norðurslóðum sem kom út á síðasta ári. 

Heiðar segir að vatnsskortur verði ekki vandamál á Íslandi. Bæði séu gnægð vatnsbirgða hér og nálægðin við Grænland hjálpi líka til en þar eru einar stærstu fersksvatnsbirgðir í heiminum.

Heiðar segir að það komi ef til vill sá dagur að íslenskum börnum verði gert að skrúfa fyrir vatnið þegar þau bursta tennurnar til þess að fara sparlega með þessa auðlind sem vatnið er, þótt það verði í fjarlægri framtíð. Vatnsskorturinn mun hins vegar snerta hagsmuni Íslendinga með öðrum hætti.

„Um leið og verð á vatni hækkar alþjóðlega þegar skorturinn eykst þá verður fýsilegt að flytja út allt það vatn sem er í kringum okkur,“ segir Heiðar. Hann segir að það hafi ekki verið arðbært til þessa. 

„Flutningskostnaður hefur hreinlega verið of hár og alþjóðleg verð of lág en það er allt útlit fyrir að það sé að breytast.“

Skoðaðar hafa verið margar aðferðir við að flytja mikið magn vatns milli landa. Ein aðferð er að blása upp gríðarstóra blöðrur. Önnur lausn eru sérsmiðuð vatnsflutningaskip en ekki er hægt að flytja ferskvatn með öðrum afurðum, t.d. eins og olíu, því það þarf að viðhalda hreinleika þess. 

Svissneskt fyrirtæki er um þessar mundir að skoða möguleikann á því að flytja miklar vatnsbirgðir frá Grænlandi á sérsmíðuðum skipum. 

„Það er erfitt að sjá hvernig þeir ná saman fjárhagslega um það en það er líklegt að eftir 10-20 ár verði þetta arðbært verkefni,“ segir Heiðar Guðjónsson. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×