Erlent

Útlendingar ofsóttir í borgum Suður-Afríku

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Fyrir utan Jeppies Hostels í Jóhannesarborg stóð þessi kona, þakin sóti, og hrópaði ókvæðisorð að útlendingum sem búa þar.nordicphotos/AFP
Fyrir utan Jeppies Hostels í Jóhannesarborg stóð þessi kona, þakin sóti, og hrópaði ókvæðisorð að útlendingum sem búa þar.nordicphotos/AFP
Að minnsta kosti sex manns hafa látið lífið í ofbeldisbylgju gegn útlendingum í Suður-Afríku undanfarna daga. Ofsóknirnar hafa vakið reiði nágrannaríkjanna, en suðurafrísk stjórnvöld hafa óskað eftir aðstoð frá öðrum Afríkuríkjum við að draga úr spennunni.

Víða um land hefur múgur manns farið um og hrakið burt alla útlendinga. Reiðin hefur ekki síst beinst að verslunum og öðrum fyrirtækjum í eigu útlendinga. Margir hafa flúið að heiman og þora ekki að snúa til baka.

Óeirðirnar hófust í hafnarborginni Durban en undanfarna daga hafa þær verið verstar í Jóhannesarborg. Tugir manna hafa verið handteknir.

Nokkur hundruð manns hafa leitað skjóls á lögreglustöð í hverfinu Jeppestown. Gwede Mantashe, framkvæmdastjóri Afríska þjóðarráðsins, segir allt stefna í að koma þurfi upp flóttamannabúðum í landinu.

Talið er að í Suður-Afríku búi að minnsta kosti tvær milljónir innflytjenda, hugsanlega allt að fimm milljónir. Þetta eru á bilinu 4 til 10 prósent af rúmlega 50 milljónum íbúa landsins alls.

Innflytjendurnir eru sakaðir um að taka störf frá heimamönnum, koma með fíkniefni inn í landið og jafnvel ætla að taka þar öll völd.

Ofbeldishrinan hófst um miðjan síðasta mánuð eftir að Goodwill Zwelithini, konungur Súlúmanna, hafði ávarpað fjölmennan útifund í KwaZulu-Natal þar sem hann sagði nauðsynlegt að útlendingar færu úr landi.

„Við skorum á alla útlendinga að pakka saman föggum sínum og hafa sig á brott,“ sagði Zwelithini á fjölmennum fundi í KwaZulu-Natal, yfirráðasvæði Súlúfólksins, um miðjan síðasta mánuð. Í byrjun apríl tók svo Edward Zuma, elsti sonur Jacobs Zuma forsta, undir þessi ummæli: „Við verðum að gera okkur grein fyrir því að í þessu landi sitjum við á þeirri tímasprengju að þeir taki yfir landið,“ er haft eftir honum á fréttasíðum suðurafríska dagblaðsins Mail and Guardian.

Faðir hans, Zuma forseti, hvetur fólk hins vegar til að halda ró sinni og láta af þessu ofbeldi.

Fyrir sjö árum reið yfir landið sams konar bylgja ofsókna gegn útlendingum. Ofbeldið þá kostaði tugi manna lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×