Körfubolti

Útivallarvandræði Jakobs og félaga halda áfram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson.
Jakob Örn Sigurðarson. vísir/valli
Jakob Örn Sigurðarson og félagar hans í Borås Basket töpuðu með sex stigum á móti Jämtland Basket í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld.

Jämtland Basket vann leikinn 90-84 þrátt fyrir að Borås Basket hafi unnið fyrsta leikhlutann 28-20 og lokaleikhlutann 20-17.

Jämtland vann annan og þriðja leikhlutann með samtals þrettán stigum og þessir tveir leikhlutar lögðu grunninn að sigri liðsins.

Borås Basket náði að jafna metin í 82-82 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir en heimamenn áttu svar við því og tryggðu sér sigurinn. Bandaríski bakvörðurinn Jabril Durham skoraði þá tvær mikilvægar körfur í röð.

Jakob Örn Sigurðarson var með 6 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar í leiknum en hann hitti aðeins úr 1 af 8 skotum sínum. Fjögur af stigum hans komu af vítalínunni.

Borås Basket hefur verið að gera góða hluti á heimavelli í deildinni í vetur en er aftur á móti í miklum vandræðum á útivelli.

Tapið í kvöld var fimmta tap liðsins í sex útileikjum í sænsku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×