Innlent

Útiloka ekki verkfallsaðgerðir

Páll Halldórsson, formaður BHM, ávarpaði fundinn.
Páll Halldórsson, formaður BHM, ávarpaði fundinn. Fréttablaðið/Pjetur
Bandalag háskólamanna mun ekki sætta sig við 3,5 prósenta launahækkanir líkt og ríkið hefur boðið í samningaviðræðum Bandalags háskólamanna og ríkisins.

Þetta kom fram á baráttufundi bandalagsins í Austurbæ í gær. Páll Halldórsson, formaður Bandalags háskólamanna, gerði félagsmönnum grein fyrir stöðu mála. Í ræðu sinni brýndi Páll nauðsyn þess að ríkið myndi setja þekkingu í forgang í kjaraviðræðum. Enn fremur segir Páll að önnur fagfélög hafi náð fram auknum launahækkunum með verkfallsaðgerðum og því sé það réttmætt að velta því upp hvort Bandalag háskólamanna þurfi að beita aukinni hörku til að ná fram bættum kjörum.

„Við erum hugsanlega tilbúin að opna á frekari aðgerðir,“ segir Páll í samtali við blaðamann. „En BHM ræður engu um það. Það eru aðildarfélög okkar sem ráða ferðinni en það hafa verið umræður um frekari aðgerðir meðal þeirra,“ segir Páll. „Við munum ekki sætta okkur við 3,5% launahækkun. Það er bara alveg út í hött,“ bætir Páll við.

Fundurinn samþykkti auk þess ályktun þar sem stuðningi er lýst við samninganefnd Bandalags háskólamanna og ríkið hvatt til að bæta kjör háskólamenntaðra og setja þekkingu í forgang á atvinnumarkaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×