Innlent

Útiloka ekki hraðamet á leið til Gautaborgar

Svavar Hávarðsson skrifar
Rafnar ehf. er hugarfóstur Össurar Kristinssonar.
Rafnar ehf. er hugarfóstur Össurar Kristinssonar. Mynd/aðsend
Embla, 11 metra strandgæslubátur sem byggður er á byltingarkenndri hönnun skrokklags Rafnar ehf., lagði í gærmorgun úr Reykjavíkurhöfn, en ferðinni er heitið á eina stærstu bátaráðstefnu heims í Gautaborg í Svíþjóð. Aldrei fyrr hefur opnum báti sem þessum verið siglt jafn langa vegalengd á jafn skömmum tíma, ef áætlanir stand­ast, og eru hraðamet ekki útilokuð.

Emblu, sem er af gerðinni Leiftur RIB 1100, verður siglt yfir úfið Atlantshafið til Gautaborgar með viðkomu í Færeyjum, Hjaltlandseyjum og Noregi.

„Tilgangurinn með siglingunni er að sýna fram á afburða sjóhæfni bátanna okkar sem meðal annars hefur verið staðfest í samanburðartilraunum Magnúsar Þórs Jónssonar, prófessors í verkfræði við Háskóla Íslands. Smíðagæði bátsins verða jafnframt kynnt og ekki síður niðurstöður úr siglingu okkar frá Íslandi til Svíþjóðar,“ segir Björn Jónsson, framkvæmdastjóri Rafnar ehf.

Embla er hraðgengur bátur og ver sig vel. Takist vel til má reikna með að met verði slegin, þó ekki sé það markmið í sjálfu sér. Embla kemur við í Vestmannaeyjum og er ferðinni heitið til Hafnar í Hornafirði áður en lagt er út á opið haf.

HSBO bátaráðstefnan stendur yfir 10.-12. maí og munu starfsmenn Rafnar sýna bátinn og bjóða upp á reynslusiglingar, en jafnframt halda fyrirlestra. Báturinn er ríkulega útbúinn og hentar til ýmissa björgunar-, eftirlits- og löggæslustarfa og hefur nýsmíði Rafnar ehf. vakið mikla athygli í bátaheiminum síðustu mánuði.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 28. apríl. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×