Skoðun

Úthvíldir starfsmenn – gulls ígildi

Vaktavinnuhópur BHM skrifar
Sagt er að vinnan göfgi manninn. Er það staðreynd sem alltaf á við? Vaktavinna er krefjandi vinnufyrirkomulag og tekur sinn toll þó ekki sé horft til annarra álagsþátta starfa. Vaktavinna getur falið í sér vinnu á öllum tímum sólarhringsins á öllum dögum ársins og oft á þeim tímum sem flestir vilja eyða með fjölskyldu og vinum.

Hvaða afleiðingar hefur vaktavinna fyrir einstakling og hans nánustu? Ef eingöngu er horft til heilsufarslegra þátta þá hafa fjölmargar rannsóknir sýnt fram á auknar líkur á streitu, svefnvanda, hjartasjúkdómum, hækkuðum blóðþrýstingi, aukinni tíðni sykursýki af týpu tvö, ofþyngd, síþreytu og minnkaðri virkni ónæmiskerfisins. Þetta voru allt líkamleg einkenni en vaktavinna kemur einnig niður á andlegu hliðinni. Þunglyndi, framtaksleysi og efasemdir um sjálfan sig, ofnotkun svefnlyfja og áfengis eru algengir fylgifiskar vaktavinnu og einnig kulnun í starfi og félagsleg einangrun.

Við erum misjöfn að upplagi og misjafnlega í stakk búin til að takast á við þá óreglu á líkamsklukkunni sem vaktavinnunni fylgir. Rannsóknir sýna að vaktavinna hentar verr morgunhönum (týpu A) heldur en nátthröfnum (týpu B) og einnig að við ráðum verr við breytingar á dægursveiflu með hækkandi aldri.

Eykur líkur á mistökum

Kjarasamningar taka sumir tillit til þessa með því að undanskilja fólk 55 ára og eldra frá næturvöktum ef það óskar eftir því. Hérlendis líta sumir vinnuveitendur svo á að annaðhvort sé vinnuhæfni vaktavinnustarfsmanns alger fram að eftirlaunaaldri eða ekki og á þá fólk ekki annarra kosta völ en að breyta um starf eða hætta!

Á Íslandi telst full dagvinna 40 klst. á viku og hámarksvinnutími skv. kjarasamningum BHM-félaga er 48 klst. Þó þekkjast dæmi þess að starfsmenn í vaktavinnu vinni langt umfram það. Slíkt getur þegar verst lætur aukið tíðni mistaka og skapað hættu fyrir skjólstæðinga og vaktavinnumanninn sjálfan. Í heilbrigðisþjónustu er afdrifaríkt að gera mistök því að þar er viðfangsefnið okkar dýrmætasta eign, fólkið okkar, nánir ættingjar einhvers og aðstandendur. Í umræðu um öryggi sjúklinga og starfsfólks er nauðsynlegt að skoða starfsumhverfi og öryggismál heilbrigðisstarfólks, sérstaklega vaktavinnufólks. Kemur fram í bandarískri rannsókn frá 2012 að langar vaktir og mikil vinna eykur líkur á mistökum og óánægja sjúklinga með umönnunaraðila eykst.

Gjörbreytt starfsumhverfi

Svefn og hvíld eru ein af grunnþörfum mannsins og öllum nauðsynleg, sérstaklega þeim sem vinna krefjandi störf. Vaktavinna truflar líkamsklukkuna og flestir sofa illa og óreglulega, sérstaklega þegar þeir fara að eldast og eiga að baki 15–30 ára starf í vaktavinnu. Þrískipt vaktakerfi gerir ekki mikið til að bæta ástandið því að ákvæðið um 11 klst. hvíld milli vakta næst ekki hjá þeim sem eru í fullu starfi. Þá þarf að grípa til ákvæðis um undantekningu frá 11 klst. hvíldinni því að við sérstakar aðstæður má stytta hvíldina í átta klst. Í þessu samhengi má spyrja sig, hvenær eru aðstæður sérstakar og hvenær eru undantekningarnar orðnar svo reglulegar að þær eru orðnar að venju. Í reynd reynast sumir vinnustaðir grípa til þessa undanþáguákvæðis alltof oft og stundum nokkrum sinnum í viku sem skerðir hvíld viðkomandi starfsmanna.

Starfsumhverfi heilbrigðisstarfsmanna hefur gjörbreyst undanfarin ár, sérstaklega með tilliti til mönnunar. Fleiri áreiti fylgja venjulegum starfsdegi en fyrr, nýliðun helst ekki í takt við þá sem hætta störfum, og vinnumarkaðurinn er orðinn stærri og teygir sig út fyrir landsteinana. Nú er meiri þörf en nokkru sinni á að huga að starfsumhverfi vaktavinnumanna og ættu stjórnendur og starfsmenn að taka saman höndum og huga vel að fyrirbyggjandi úrræðum þar sem hvíld að loknum annasömum starfsdegi er í öndvegi.

Við skrif þessarar greinar var stuðst við eftirfarandi rannsóknir á eftirfarandi slóðum:

https://www.plosone.org/article/info%3Adoi%2F10.1371%2Fjournal.pone.0070882

https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC3822308/

https://www.sjweh.fi/show_abstract.php?abstract_id=410

https://www.sjweh.fi/show_abstract.php?abstract_id=2894








Skoðun

Sjá meira


×