Innlent

Úthlutun ekki í takt við fjöldann

Sæunn Gísladóttir skrifar
Fjárhæð úr sjóðnum deilt með fjölda ferðamanna
Fjárhæð úr sjóðnum deilt með fjölda ferðamanna
Útdeiling fjármuna úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða eftir landshlutum er ekki í takt við dreifingu ferðamanna. Þingvellir, sem rúmur helmingur ferðamanna sótti heim síðasta sumar, fær enga fjárveitingu annað árið í röð og ekkert fer til suðausturhluta landsins.

Alls eru veittir styrkir til 58 verkefna hringinn í kringum landið og nemur heildarfjárhæð styrkja 610 milljónum króna. Ef skoðuð er heildarfjárhæð á hvern landshluta, deilt með fjölda ferðamanna sem heimsóttu svæðið sumarið 2016 samkvæmt tölum Ferðamálastofu, má sjá að þar gætir mikils misræmis. Dreifingin er allt frá 57,5 krónum á hvern ferðamann í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar til 518,8 króna á hvern ferðamann á hálendinu.

Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri Mýrdalshrepps.vísir/vilhelm
Vísir greindi frá því í gær að Þingvöllum hefur nú í tvígang verið synjað um fjárveitingu úr sjóðnum. Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, segir að sótt hafi verið um styrki fyrir alveg bráðnauðsynlegt verkefni, að koma upp vatnssalernum á Þingvöllum. Hann segir sjóðinn skelfilegt fyrirbrigði og telur að Þingvellir ættu einfaldlega að fá meira fé á fjárlögum.

Suðurland, sem tók á móti 70 prósentum ferðamanna sumarið 2016 samkvæmt Ferðamálastofu, fær 93,7 milljónir úr sjóðnum, eða 15 prósent af þeim 610 milljónum sem skipt var. Það er 198,1 króna á hvern ferðamann 2016, sem er mun minna en á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi.

„Það er auðvitað mjög sérkennilegt. En þannig hefur þetta alltaf verið. Þegar menn eru hér að tala um að lagfæra einbreiðar brýr ætla menn ekki að lagfæra þá einbreiðu brú sem flestir ferðamenn fara um sem er yfir Jökulsá á Sólheimasandi. Misskiptingin er mikil,“ segir Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri Mýrdalshrepps.

Mýrdalshreppur hlaut á síðasta ári styrk úr sjóðnum.vísir/vilhelm
Ef útdeilingin er skoðuð má sjá að fé rennur til margra vinsælla áfangastaða á Suðurlandi, til Gullfosss og Geysis, Reykjadals og Skóga. Þó er lítið sem ekkert um styrki frá miðju Suðurlandi og austur á land.

Að sögn Ásgeirs sótti Mýrdalshreppur ekki um úr sjóðnum að sinni. „Við fengum úthlutað til framkvæmda í Dyrhólaey í fyrra sem er ekki búið að ljúka og sóttum því ekki um í ár.“ Ásgeir telur að full þörf sé þó fyrir meira fé til uppbyggingar í sveitarfélaginu.

„Við erum hér í 500 manna sveitar­félagi og erum að taka á móti 1,5 milljónum ferðamanna. Það segir sig sjálft að það þarf verulega að taka til hendinni hér. Það þarf miklu meiri peninga í uppbyggingu á þessum ferðamannastöðum. Þá er ég að tala um allt. Það sem er stóra málið hér eru vegirnir, útskot veganna, og bílastæðamál.“

Ásgeir segir að mikil umræða hafi farið fram um hvernig sé best að ná í meira fé, til dæmis í gegnum fjárlög. Hann telur þó að einfaldasta leiðin sé að taka af ferðamönnum innkomugjald þegar þeir koma til landsins.

„Það er einfalda leiðin til að taka inn peninga til að deila út til framkvæmda á þessum stöðum,“ segir Ásgeir. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×