Innlent

Úthlutaði rúmlega níutíu milljónum króna í styrki úr lýðheilsusjóði

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Frá athöfninni í grasagarðinum í dag
Frá athöfninni í grasagarðinum í dag Velferðarráðuneytið
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra úthlutaði í dag rúmlega níutíu milljónum króna í styrki úr lýðheilsusjóði til 139 verkefna og rannsókna. Á vef velferðarráðuneytisins kemur fram að við auglýsingu eftir umsóknum árið 2017 var meðal annars lögð áhersla á aðgerðir til eflingar geðheilsu, forvarnir gegn sjálfsvígum, áfengis-, tóbaks- og vímuvarnir og verkefni sem beinast að minnihlutahópum til að stuðla að jöfnuði til heilsu.

Styrkjunum var úthlutað út frá tillögum stjórnar lýðheilsusjóðs en markmið lýðheilsusjóðs er að stuðla að heilsueflingu og forvörnum ásamt því að styrkja lýðheilsustarf sem samræmist markmiðum laga um landlækni og lýðheilsu.

Styrkirnir voru veittir við hátíðlega athöfn í Grasagarðinum í dag þar sem heilbrigðisráðherra og Kristín Heimisdóttir, formaður lýðheilsusjóðs, voru meðal þeirra sem fluttu ávörp.

Óttar lýsti yfir ánægju sinni með hve mörg og fjölbreytt verkefnin væru. Telur hann verkefnin mikilvægan lið í að efla forvarnir og heilsueflingu og þar með auka vellíðan og lífsgæði einstaklinga og fjölmargra hópa.

Meðal verkefna sem hljóta styrk úr sjóðnum í ár er samstarfsverkefni Kynís, Ástráðs, FKB og heilsueflandi framhaldsskóla um smokkasjálfsala í framhaldsskólum til að sporna við óvenju hárri tíðni klamydíu hér á landi. Verkefni Núvitundarsetursins um innleiðingu núvitundar í sex grunnskóla hlaut hæstan styrk eða fjórar milljónir króna.

Sjá má lista yfir styrkhafa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×