Innlent

Útgerðarstjóri Polar Seafood: „Treysti því að þeir séu saklausir“

atli ísleifsson skrifar
Tveir menn eru í gæsluvarðhaldi vegna gruns um að tengjast morðinu á Birnu Brjánsdóttur.
Tveir menn eru í gæsluvarðhaldi vegna gruns um að tengjast morðinu á Birnu Brjánsdóttur. Vísir/AFP
„Mér líður að sjálfsögðu skelfilega illa með þetta. Ég treysti því að þeir séu saklausir þar til annað sannast og ég á ótrúlega erfitt með að ímynda mér að þeir séu sekir,“ segir Jørgen Fossheim, útgerðarstjóri Polar Seafood, í samtali við danska TV2, um mál mannanna sem eru í haldi lögreglu vegna gruns um að hafa ráðið Birnu Brjánsdóttur bana.

Fossheim segir málið allt leggjast þungt á starfsmenn fyrirtækisins, en tveir skipverjar grænlenska togarans sitja nú í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Þeir hafa neitað sök.

Fossheim segir andrúmsloftið meðal skipverja vera slæmt og að þeim hafi verið boðin áfallahjálp.

Ný áhöfn mun sigla skipinu úr landi, en skipverjar hafa dvalið á hóteli á höfuðborgarsvæðinu síðustu daga. Fossheim segist ekki vita hvenær skipið fær heimild til að sigla, en fyrirtækið verði af miklum tekjum hvern þann dag sem skipið er fast við bryggju.

Lögregla fann einnig um 20 kíló af hassi um borð í Polar Nanoq eftir leit um borð í skipinu en áætlað er að verðmæti efnanna sé milli 10 til 12 milljónir danskra króna, milli 163 til 196 milljónir íslenskra króna.

Fossheim segir ljóst að það sé fólk sem búi yfir miklu fé sem hafi skipulagt hasssmyglið. „Það er auðvitað ekki grænlenskur sjómaðuri sem hefur keypt hass í Kristjaníu til að fara með heim. Hér eru atvinnumenn að verki,“ segir Fossheim.


Tengdar fréttir

Vísbendingar komnar um dánarorsök

Bráðabirgðakrufning réttarmeinafræðings lögreglunnar, sem lauk í gærkvöld, færði lögreglu nær því að vita hver dánarorsök Birnu Brjánsdóttur er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×