Innlent

Útgerðarfyrirtækið Brim klýfur sig frá SFS

Svavar Hávarðsson skrifar
Guðmundur Kristjánsson
Guðmundur Kristjánsson
Eigendur útgerðarfyrirtækisins Brims hf. hafa dregið fyrirtækið út úr nýstofnuðum Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). Guðmundur Kristjánsson, aðaleigandi Brims, segir það ekki þjóna hagsmunum fyrirtækisins að vera áfram innan vébanda samtakanna, heldur þvert á móti.

„Við teljum, eins og þetta hefur verið rekið, að þetta séu fyrst og síðast samtök fiskverkenda. Brim er bara í útgerð en við eigum að borga margfalt hærri félagsgjöld en fiskverkendur. Við töldum, eins og stefnan hefur verið og er, að það væri betra fyrir Brim að standa utan við þessi samtök,“ segir Guðmundur og bætir við að eigendur Brims hafi ekki verið sammála málflutningi samtakanna í mörgum veigamiklum málum. „Við gátum eitthvað aðeins fylgst með hvað menn voru að segja en við vorum svo felldir út úr stjórn samtakanna af því að við vorum annarrar skoðunar en meirihlutinn.“

Spurður nánar um deiluefnin segir Guðmundur þorskígildisstuðla fyrsta að telja. Þegar stjórnvöld tóku að skattleggja útgerðina hafi það komið sérstaklega illa við frystitogaraútgerðina. Eins sé uppgjörsverð miklu hærra á frystiskipunum en ísfisktogurum. Það valdi því að Brim, og líkar útgerðir, þurfi að greiða mun hærri gjöld en fiskverkendur.

„Þetta hafa menn ekki viljað leiðrétta og félagsmönnum hefur því verið mismunað eftir rekstrarformi,“ segir Guðmundur.

Samkvæmt reglum SFS er heimilt að segja sig úr samtökunum með minnst sex mánaða fyrirvara. Hins vegar nýttu eigendur Brims sér uppstokkun samtakanna í nóvember þar sem mánaðar gluggi var gefinn til úrsagnar. Guðmundur segir Brim því vera sjálfstætt félag frá áramótum að telja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×