Erlent

Utanríkisráðherrar NATO-ríkjanna hyggjast bjóða Svartfjallalandi aðild

Atli Ísleifsson skrifar
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO. Vísir/EPA
Utanríkisráðherrar aðildarríkja NATO munu bjóða Svartfjallalandi aðild að bandalaginu með formlegum hætti á tveggja daga fundi sínum sem hófst í Brussel í dag.

Meirihluti þings Svartfjallalands hefur áður samþykkt að landið gerist aðili að NATO og hafa stjórnvöld þar í landi gert nauðsynlegar breytingar á her landsins og varnarmálaráðuneyti til að búa landið undir aðild.

Í frétt Guardian kemur fram að búist sé við að utanríkisráðherrar NATO-ríkjanna muni einróma samþykkja boð um aðild á morgun og er talið að Svartfjallaland gæti verið orðið fullgildur aðili eftir tólf til átján mánuði.

Ekki eru nema sautján ár síðan NATO-ríkin gerðu árásir á skotmörk í Svartfjallalandi, sem þá var hluti gömlu Júgóslavíu.

Slóvenía, Króatía og Albanía eru þegar aðilar að NATO, en líklegt er talið að boðið muni ekki falla rússneskum stjórnvöldum í geð, enda hafa þau áður lýst fjölgun aðildarríkja bandalagsins sem „ögrun“.

Sendiherra Bandaríkjanna gagnvart NATO, Douglas Lute, segir ákvörðunina um að bjóða Svartfjallalandi aðild ekki vera skilaboð til Rússlands. „Þetta snýst ekki um Rússland.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×