Viðskipti innlent

Utanboxhugsun fyrir ferðamenn

Stjórnarmaðurinn skrifar
Árið 2015 verður tímamótaár í Íslandssögunni. Fjöldi ferðamanna fer í fyrsta skipti yfir eina milljón.

Eðlilegt er að þessum áður óþekkta heimsóknarfjölda fylgi nýjar áskoranir. Huga þarf að hvernig vernda á náttúruperlur fyrir átroðningi, rétt eins og tryggja verður að infrastrúktúr landsins beri álagið.

 

Það er staðreynd að erlendir ferðamenn nýta sér ekki innanlandsflug. Er því ekki kominn tími til að dusta rykið af kostnaðargreiningum sem gerðar voru á léttlestarkerfi  frá Keflavík til Reykjavíkur? Ljóst er að forsendur eru breyttar síðan þá, ferðamannafjöldinn hefur margfaldast.

 

Sennilega eru meiri þægindi og nýtileiki fólgin í góðum samgöngum milli Keflavíkur og höfuðborgarinnar en innlandsflugvelli í miðborginni. Hvað sem líður harmakveini landsbyggðarþingmanna og annarra sem telja alla nema Reykvíkinga mega berjast fyrir hagsmunum nærumhverfisins.

 

Þessi nýi raunveruleiki snýr ekki bara að framtíðardraumum um léttlestarkerfi, heldur nánast öllu sem tengist ferðamannaiðnaðinum. Stjórnarmaðurinn hnaut um umkvartanir formanna Neytendasamtakanna og Félags leiðsögumanna  varðandi verðlag á ferðamannastöðvum. Mátti lesa milli línanna að þeir teldu aðgerða þörf ef ekki ætti illa að fara og ferðamenn hreinlega fælast frá vegna verðlags.

 

Stjórnarmaðurinn deilir ekki þessum áhyggjum, enda er það óhjákvæmilegur fylgifiskur túrisma að verðlag fari hækkandi. Túristinn sjálfur verður svo að taka ákvörðun um hvort hann fellur í gildruna.

 

Formaður félags leiðsögumanna gerði að umtalsefni verðmun á bolum merktum Bláa lóninu annars vegar, og Hellisheiðarvirkjun hins vegar. Sá fyrrnefndi kostaði tæpar fimm þúsund krónur, en sá seinni fimmtán hundruð. Ekki væri sjáanlegur gæðamunur á bolunum tveimur.

 

Stjórnarmaðurinn er ekki sammála formanninum. Bláa lóninu hefur tekist vel til í markaðssetningu og búið til vörumerki sem þekkt er víða um heim. Þótt Hellisheiðarvirkjun sé ágæt verður seint sagt að hún teljist til vinsælli ferðamannastaða landsins. Þar liggur verðmunurinn.

 

Stjórnarmaðurinn er hins vegar sammála undirtóninum í orðum formanns félags leiðsögumanna, þ.e.a.s. við getum ekki tekið þessum ferðamannafjölda sem sjálfsögðum hlut og verðum að vanda til verka ef íslenska ferðamannavorið á að verða að sumri.

 

Þar bera allir ábyrgð. Kaupmenn, leiðsögumenn og aðrir, en síðast en ekki síst stjórnvöld, sem þurfa að huga að infrastrúktúr í landi sem þarf að þola áður óþekktan átroðning. Þar þarf að hugsa út fyrir boxið.

Stjórnarmaðurinn er sigldur innherji með puttann á púlsinum. Stjórnarmaðurinn skrifar í Markaðinn í Fréttablaðinu á miðvikudögum og liggur ekki á skoðunum sínum um menn og viðskiptaleg málefni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×