Sport

Usain Bolt: Ég er að reyna að komast í hóp með Ali og Pele

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Usain Bolt fagnar sigri með sínu fólki frá Jamaíka í nótt.
Usain Bolt fagnar sigri með sínu fólki frá Jamaíka í nótt. Vísir/Getty
Usain Bolt bætti í nótt við gullverðlaunum í 200 metra hlaupi karla við þau sem hann vann í 100 metra hlaupi fyrr á Ólympíuleikunum í Ríó.

Enginn hefur náð að vinna þessar tvær greinar í sitthvoru lagi á þremur leikum í röð hvað þá þær báðar á þremur Ólympíuleikum í röð.

„Ég þarf ekki að sanna neitt annað. Hvað annað get ég gert til að sanna fyrir heiminum að ég sé sá besti," sagði Usain Bolt eftir hlaupið.

Sjá einnig:Usain Bolt fagnaði gullinu með því að syngja með í Bob Marley lagi

„Ég er að reyna að vera sá besti. Að komast í hóp með Ali og Pele," sagði Usain Bolt og er þar að tala um hnefaleikakappann Muhammad Ali og knattspyrnumanninn Pele sem er sá eini sem hefur unnið þrjá heimsmeistaratitla í fótbolta karla.

„Ég vona að eftir þessa Ólympíuleika teljist ég í hópi með þessum tveimur," sagði Usain Bolt.

 „Ég þarf engin orð. Áttfaldur Ólympíumeistari. Þetta eru mínir síðustu Ólympíuleikar. Ég get ekki sannað meira," sagði Usain Bolt.

„Ég hef gert mína íþrótt spennandi og ég hef fengið fólk til að vilja horfa. Ég hef sett þetta sport upp á annað stig," sagði Bolt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×