Enski boltinn

Úrvalsdeildarliðin áfram - City með sýningu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Úrvalsdeildarliðin Everton, Stoke og Manchester City tryggðu sér í kvöld sæti í undanúrslitum ensku deildabikarkeppninnar. Öll mættu þeim B-deildarliðum í fjórðungsúrslitunum í kvöld.

City vann öruggan sigur á Hull City, 4-1, þar sem Belginn Kevin De Bruyne fór mikinn. Wilfried Bony skoraði fyrsta mark City er hann fylgdi eftir stangarskoti De Bruyne en markið kom strax á tólftu mínútu.

Leikmenn City léku svo á als oddi síðustu tíu mínúturnar og skoruðu þrjú mörk til viðbótar. Fyrst Kelechi Iheanacho eftir undirbúning Raheem Sterling og svo skoraði De Bruyne tvívegis, þar af eitt beint úr aukaspyrnu. Andrew Robertson klóraði í bakkann fyrir Hull í uppbótartíma.

Everton vann 2-0 sigur á Middlesbrough með mörkum Gerard Deulofeu og Romelu Lukaku í fyrri hálfleik og þá hafði Stoke betur gegn Sheffield Wednesday, 2-0. Ibrahim Affelay og Phillip Bardsley skoruðu mörk Stoke.

Fjórðungsúrslitunum lýkur svo annað kvöld er Southampton tekur á móti Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×