Íslenski boltinn

Úrslitaleikurinn hjá stelpunum hefst ekki fyrr en klukkan 20.30

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valur og Fylkir spila til úrslita í ár.
Valur og Fylkir spila til úrslita í ár. Vísir/Daníel
Úrslitaleikur Reykjavíkurmóts kvenna í fótbolta er ekki spilaður á venjulegum tíma í ár. Leiknum mun ljúka í kringum hálf ellefu um kvöld.

Fylkir og Valur spila um Reykjavíkurmeistaratitil kvenna í ár og fer leikurinn fram í Egilshöllinni fimmtudagskvöldið 23. febrúar næstkomandi.

Karlarnir léku sinn úrslitaleik á mánudagskvöldið var og unnu Valsmenn þá 1-0 sigur á Fjölni.Karlaleikurinn hófst klukkan 19.00 en úrslitaleikur stelpnanna hefst ekki fyrr en klukkan 20.30.

Þetta er fjórða árið í röð sem stelpurnar spila sérstakan úrslitaleik í Reykjavíkurmótinu en árin á undan vannst titilinn í deildarkeppni þar sem allir spiluðu við alla.

Leiktími úrslitaleiksins í ár sker sig algjörlega úr á meðal leiktíma úrslitaleikja Reykjavíkurmótsins undanfarin fjögur ár.

Valskonur spiluðu reyndar leik upp á líf eða dauða í Reykjavíkurmótinu svo seint á dögunum því undanúrslitaleikur KR og Vals hófst klukkan 20.45. Ástæðan var að báðir undanúrslitaleikirnir fóru fram það kvöld og leikur Fylkis og Fjölnis var á undan eða klukkan 18.45.

Það verður örugglega ekki mikið um ungar knattspyrnukonur í Egilshöll í úrslitaleiknum á fimmtudagskvöldið en útivistartími barna yngri en 12 ára er til 20:00 á vetrum en fyrir ungmenni 13 til 16 ára er það til 22:00 yfir vetrartímann.

Tími á úrslitaleikjum Reykjavíkurmóts karla og kvenna undanfarin ár

2017: Karlar (19.00) - Konur (20.30)

2016: Karlar (19.00) - Konur (18.45)

2015: Karlar (19.00) - Konur (19.00)

2014: Karlar (19.00) - Konur (19.00)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×