Fótbolti

Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar 2019 annað hvort í Bakú eða Madríd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólympíuleikvangurinn í Bakú í öllu sínu veldi.
Ólympíuleikvangurinn í Bakú í öllu sínu veldi. vísir/getty
Úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu 2019 gæti farið fram í Bakú, höfuðborg Aserbaísjan.

Úrslitaleikurinn eftir tvö ár verður annað hvort á Ólympíuleikvanginum í Bakú eða Estadio Metropolitano, heimavelli Atlético Madrid frá og með næsta tímabili.

Aldrei hefur leikur af þessari stærðargráðu farið fram í Bakú.

Sjö ár eru síðan úrslitaleikur Meistaradeildarinnar fór síðast fram í Madríd. Þá mættust Inter og Bayern München á Santiago Bernabéu, heimavelli Real Madrid.

Bakú er einnig einn þeirra sjö staða sem keppast um að fá úrslitaleik Evrópudeildarinnar 2019. Úrslitaleikirnir í Meistaradeildinni og Evrópudeildinni mega þó ekki fara fram á sama stað.

Auk Bakú sóttu Tíblisi, Glasgow, Frankfurt, Stuttgart, Sevilla og Istanbúl um að fá úrslitaleik Evrópudeildarinnar.

Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar í ár fer fram á Þúsaldarleikvanginum í Cardiff en úrslitaleikur Evrópudeildarinnar á Friends Arena í Solna.

Á næsta ári fer úrslitaleikur Meistaradeildarinnar fram á Ólympíuleikvanginum í Kænugarði en úrslitaleikur Evrópudeildarinnar á Parc Olympique Lyonnais í Lyon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×