Innlent

Úrhelli á Siglufirði: „Hefur gengið djöfullega að eiga við ástandið“

Atli Ísleifsson skrifar
Ámundi segir að verið sé að dæla úr húsum, en að sjávarstaðan sé sérstaklega há sem hafi gert mönnum erfitt fyrir.
Ámundi segir að verið sé að dæla úr húsum, en að sjávarstaðan sé sérstaklega há sem hafi gert mönnum erfitt fyrir. Mynd/Andri Freyr Sveinsson
„Það hefur gengið djöfullega að eiga við ástandið þar sem það er svo mikil leðja í þessu og það er víða að flæða inn í hús,“ segir Ámundi Gunnarsson, slökkviliðsstjóri Fjallabyggðar. Hólavegur hefur farið í sundur á Siglufirði og mikið vatn safnast saman á götum bæjarins.

Ámundi segir að búið sé að rigna óhemju mikið síðustu tvo daga og það hafi losnað um allrahanda jarðveg sem sé að skila sér niður í bæinn. „Hvanneyraráin hefur stíflast með aur og drullu. Svo fór úr einum snjóflóðagarðinum og kom niður í hús.“

Hann segir að utan við bæinn og á Almenningum séu skriður farnar á veginn. „Það eru örugglega þúsundir tonna á veginum þannig að hann opnast ekkert fyrr en eftir helgi.“

Slökkviliðsstjórinn segir að björgunarsveitarmenn, bæjarstarfsmenn og slökkviliðsmenn séu að störfum þessa stundina til að lágmarka tjónið. Engin slys hafi orðið á fólki en vatnstjón er mikið.

Ámundi segir að verið sé að dæla úr húsum, en að sjávarstaðan sé sérstaklega há sem hafi gert mönnum erfitt fyrir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×