Innlent

Urðu að leigja Boeing 757 farþegaþotu í innanlandsflug vegna fannfergisins

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Farþegaþotan sem Flugfélag Íslands leigði af Icelandair er svipuð og þeirri sem sést á þessari mynd.
Farþegaþotan sem Flugfélag Íslands leigði af Icelandair er svipuð og þeirri sem sést á þessari mynd. Vísir/Vilhelm
Flugfélag Íslands varð að leigja Boeing 757 farþegaþotu til innanlandsflug í kvöld vegna tafa sem urðu í kjölfar snjókomunnar sem herjaði á höfuðborgarsvæðið í nótt og teppti flest allar samgöngur í dag. Aldrei hefur snjór mælst jafn mikill í febrúar.

Í samtali við Vísi segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, að félagið hafi þurft að bregðast við, þar sem ekki hefði verið hægt að flytja alla bókaða farþega í morgun vegna fannfergsins.

„Við fórum það seint af stað í morgun, útaf snjólögum hérna í Reykjavík, svo að þá var brugðið á það ráð að fá eina þotu hjá Icelandair, eina 757 til að fara með farþega í kvöld til Akureyrar, til að klára daginn og flytja alla bókaða farþega sem ekki var hægt að flytja í morgun.“

Reykjavíkurflugvöllur og Akureyrarflugvöllur eru varaflugvellir fyrir Keflavíkurflugvöll og henta vel undir slíkar flugvélar, sem allajafna eru notaðar í millilandaflug hérlendis, stærðar sinnar vegna. Árni segir að tilvik líkt og þessi komi sjaldan upp.

„Þetta kemur nú ekki oft fyrir. Þetta getur gerst kannski einu sinni til tvisvar á ári og fer að sjálfsögðu eftir því hvernig tíðarfarið er. Við bregðum stundum á þetta ráð þegar það gengur upp.“

Slíkar þotur rúma 180 manns og segir Árni að vélin hafi flutt rúmlega 160 manns frá Reykjavík til Akureyrar og svo annan jafn stóran hóp, til baka til Reykjavíkur. Flugvélinni er svo flogið aftur til baka til Keflavíkur, eftir að verkefnum hennar lýkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×