Fótbolti

Urðu að gera hlé á leiknum vegna jarðskjálftans í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Pescara og Atalanta eftir að jarðskjálftinn varð.
Leikmenn Pescara og Atalanta eftir að jarðskjálftinn varð. Vísir/Getty
Jarðskjálftinn á Ítalíu í gærkvöldi hafði áhrif á leik í ítölsku A-deildinni en það þurfti að gera hlé á leik Pescara og Atalanta vegna jarðskjálfta.

Tveir öflugir jarðskjálftar urðu á Ítalíu í gær, sá fyrri var 5,4 að stærð og varð um fimm en öflugur eftirskjálfti á áttunda tímanum var 5,9 að stærð.

Síðasti skjálftinn varð einmitt í miðjum leik Pescara og Atalanta en upptökin voru í nágrenni Pescara þar sem leikurinn fór fram.

Fólk í Pescara og nágrenni hljóp út á götu en fyrir tveimur mánuðum reið öflugur skjálfti yfir suður Ítalíu þar sem 295 manns fórust. Ekki er vitað um að einhver hafi farist í þessum skjálftum sem urðu í gær.

Það var enn fyrri hálfleikur í leik Pescara og Atalanta og markalaust þegar skjálftinn reið yfir en gera þurfti tveggja mínútna hlé á leiknum.

Leikurinn hófst svo á nýjan leik og Mattia Caldara skoraði síðan eina mark leiksins fyrir gestina í Atalanta á 60. mínútu. Sigurmarkið skoraði Caldara með skalla eftir hornspyrnu frá Remo Freuler.

Atalanta komst upp í sjötta sætið með þessum sigri en heimamenn í Pescara eru aðeins stigi frá fallsæti efir þriðja tap sitt í síðustu fjórum leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×