Skoðun

Úr vörn í sókn

Bjartur Steingrímsson skrifar
Nú styttist í árlegar kosningar í Háskóla Íslands til Stúdentaráðs sem haldnar eru 4. og 5. febrúar næstkomandi. Í Stúdentaráði sitja kjörnir fulltrúar stúdenta og starfa þeir í því umboði sem rödd og armur stúdenta í hagsmunabaráttu sinni, bæði innan veggja skólans sem utan. Þessir fulltrúar stúdenta vinna síðan ötullega að því að bæta hlut stúdenta, bæði með tilliti til gæða náms og umhverfis í Háskólanum en einnig með því að glíma við þau mál sem líkleg eru til að ganga þvert gegn hagsmunum þeirra.  Í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem skapast hefur í kjörum stúdenta og rekstri vinnustaðar þeirra, Háskólans, á síðustu árum hafa þeir ærið verk að vinna. Háskólinn hefur sætt miklum niðurskurði undanfarin ár sem aðeins hefur að litlu leyti verið skilað til baka þó aftur séu til meiri peningar í ríkissjóði. Nú síðast þegar skrásetningargjöld stúdenta voru hækkuð voru framlög til Háskólans skorin niður á móti þannig að tekjulág stétt stúdenta borgar meira, umfram skatta sína, til viðhalds háskóla sem er engu betur settur.

Pólitísk virkni og vitundarvakning um hagsmunabaráttu stúdenta á að vera grundvallarhugsjón í starfi Stúdentaráðs. Þar er átt við öll málefni sem tengjast daglegu lífi háskólanemans, stór og smá sem varða starf, kennslu og aðstöðu innan háskólans yfir í pólitískar ákvarðanir sem teknar eru utan veggja háskólans og varða hag stúdenta á marga vegu. Íslenskir stúdentar sem fjölbreyttur hópur mótar sér skoðanir á þessum málefnum og verðskuldar fulltrúa sem þora að láta í sér heyra varðandi þau. Stúdentaráð stundar sitt öfluga starf fyrst og fremst innan Háskólans í góðu samstarfi við stjórn hans og starfsfólk en þar með er þó ekki sagt að hagsmunabarátta stúdenta endi við lóðarmörkin í Vatnsmýrinni. Stúdentaráð sem lætur sig t.a.m. ekki varða um eða telur sig ekki hafa umboð til að tjá sig um tilteknar pólitískar ákvarðanir, ákvarðanir eins og hækkun virðisaukaskatts á bókum og mat eða stórtækar útgjaldaaðgerðir ríkisvaldsins sem skuldsetur komandi kynslóðir, er stúdentaráð sem horfir of þröngt á málin. Alvarleg staða stúdenta kallar á róttækar og oft nýstárlegar aðgerðir.  Hvort sem það eru málaferli Stúdentaráðs gagnvart ríkinu í málefnum LÍN eða mótmælaaðgerðir á Austurvelli gagnvart fjárlögum sem skerða hag stúdenta þá er mikilvægt að láta ekki almennar hugmyndir um venjur og hefðir eða velsæmi aftra sér frá því að nýta sér öll tiltæk tól og verkfæri sem nýst gætu stúdentum í baráttu sinni.

Hugmyndin um Háskóla Íslands sem öflugan og opinn háskóla fyrir alla landsmenn er hugsjón sem verðugt er að berjast fyrir. Þar er átt við háskóla þar sem öllum er veittur aðgangur að því námi sem þeir kjósa óháð fjárhagstöðu, kyni, kynhneigð, búsetu eða heilsu. Þar er átt við umgjörð og kerfi sem veitir námsmönnum góða og faglega þjónustu, fullnægjandi aðstöðu og mannsæmandi lífsskilyrði til að stunda nám sitt. Þar er átt við stofnun sem er leiðandi í rannsóknum, menntun, aðbúnaði og þjónustu þar sem komandi kynslóðir geta starfað og menntað sig samfélaginu til hagsbóta. Draumurinn um þennan framsækna háskóla hefur á síðustu árum frekar fjarlægst en hitt og ef snúa á þeirri þróun við dugar ekki að malda lauslega í móinn eða láta sem ekkert sé að. Það dugar ekki fyrir stúdenta að láta sem breiðari pólitískar öldur og straumar samfélagsins í heild varði ekki hag þeirra og líf innan háskólans eða muni ekki hafa úrslitaáhrif á það samfélag sem bíður þeirra að námi loknu. Til að snúa þessari þróun við þarf að fara endurvekja hina þögnuðu rödd stúdenta svo hún ómi í samfélaginu öllu. Nú er kominn tími fyrir stúdenta til að vakna af vondum draumi og snúa vörn í sókn.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×