Lífið

Uppteknasti plötusnúður verslunarmannahelgarinnar

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Björn Valur er gríðarlega eftirsóttur plötusnúður um þessar mundir en hann sér meðal annars um undirspil fyrir Úlf Úlf og Emmsjé Gauta.
Björn Valur er gríðarlega eftirsóttur plötusnúður um þessar mundir en hann sér meðal annars um undirspil fyrir Úlf Úlf og Emmsjé Gauta. Vísir/Hanna
Björn Valur Pálsson er líklega einn uppteknasti plötusnúður landsins um þessar mundir en hann spilar bæði með Úlfur Úlfur og Emmsjé Gauta auk þess sem hann er sjálfur í hljómsveitinni sxsxsx. Verslunarmannahelgin er gósentíð tónlistarmanna og eru bæði Úlfur Úlfur og Gauti að spila hér og þar á landinu um helgina – því er líklegt að Björn verði upptekinn þessa helgi og að sveitirnar muni berjast um að fá hann með sér.

„Við vorum að spila á Þjóðhátíð og þá var ég að spila bæði með Úlfur Úlfur og Gauta – en svo erum við Úlfur að spila í Sjallanum á sunnudaginn á Akureyri. Því miður get ég ekki verið með Gauta á Innipúkanum á sama tíma og ég spila í Sjallanum en sxsxsx eru líka að spila þar þannig að ég varð að velja Akureyri. Ég veit að Gauti er reiður og er að baktala mig við hina strákana en það er allt í lagi því við verðum alltaf vinir á endanum – örugglega bara strax á mánudaginn þegar við hittumst í þynnkunni og horfum á katta­vídeó saman,“ segir Björn Valur, sem er farinn að undirbúa sig fyrir helgina með því að gera armbeygjur og æfa skiptingar á milli Panda með Desiigner yfir í Lífið er yndislegt.



„Það er auðvitað leiðinlegt að missa Björn út en Addi Intro verður til taks í Reykjavík og við höfum spilað um það bil milljón sinnum saman svo það verður tjúllað,“ segir Emmsjé Gauti sem lætur Björns-leysið ekki stöðva sig í að halda uppi fjörinu á Innipúkanum, en eins og hann segir kemur hin gamalreynda DJ-kempa Addi Intro í hans stað, en Addi hefur verið að þeyta skífum síðan Gauti var með spangir og í skátunum.

„Það er rosa gott að hafa Bjössa, hann er órjúfanlegur partur af settinu og hjörtum okkar. Svo er Sjallinn nettur, minnisvarði um ótrúlega tíma í íslenskum dansiballakúltúr,“ segir Arnar Freyr Frostason eða Talandi Tunga eins og hann kallaði sig alltaf hér í denn þegar hann bjó á Sauðárkróki um þennan verðmæta plötusnúð.

Úlfur Úlfur spilar Sjallanum Akureyri á sunnudaginn sem hluti af dagskránni á íslensku sumarleikunum sem fara fram þar í bæ. Einnig verður dúóið sxsxsx sem Björn Valur er í ásamt Helga Sæmundi úr Úlfinum þar sama kvöld. Emmsjé Gauti spilar á Innipúkanum á sunnudaginn, réttara sagt á Húrra og verður þar hluti af veigamikilli dagskrá en ásamt honum koma fram sama kvöld Gangly og Agent Fresco en hinum megin, á Gauknum sem sagt, verða Herra Hnetusmjör, Karó, Aron Can og Grísalappalísa.

Það er síðan ákaflega viðeigandi að enda þetta með skemmtilegu lagi um vináttu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×