Lífið

Uppskriftabók sem er ekki matreiðslubók

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Elín Edda segir verkefnið eitt af þeim skemmtilegri sem hún hefur tekið að sér á skólagöngu sinni.
Elín Edda segir verkefnið eitt af þeim skemmtilegri sem hún hefur tekið að sér á skólagöngu sinni. Vísir/Pjetur
Uppskriftarbók – skáldverk er helst til óvenjuleg uppskriftarbók. Hún er ekki matreiðslubók og inniheldur ekki uppskriftir í algengasta skilningi þess orðs.

Verkefni er samstarfsverkefni tíu rithöfunda og sjö ritstjóra sem stunda meistaranám í ritlist og ritstjórn við Háskóla Íslands. „Þetta er svona risastórt hópverkefni, alveg ótrúlega skemmtilegt verkefni og með þeim skemmtilegri sem ég hef fengið að gera í skólaumhverfi. Svona læra með því að gera,“ segir Elín Edda Pálsdóttir, einn af ritstjórunum.

Hópurinn hafði fjóra mánuði til þess að takast á við alla þætti útgáfuferlisins og settust þau niður í janúar og ákváðu efnistök og umfjöllunarefni. „Við ákváðum að kalla hana uppskriftabók, þótt hún sé ekki með uppskriftum sem er hægt að elda eftir,“ segir Elín Edda glöð í bragði.

„Það var aldrei planið að gera uppskriftarbók með alvöru uppskriftum. En af því að þetta var svo breiður og ólíkur hópur höfunda sem hefur verið að skrifa ólíka texta, var þetta áhugaverður punktur til þess að byrja frá, sumir eru nær þemanu en aðrir fjær.“

Allir textarnir eru sérstaklega skrifaðir fyrir verkefnið og sem dæmi um uppskriftir úr bókinni má nefna uppskrift að ferðalögum, sköpun heimsins og uppskrift að góðum samskiptum við nágranna.

Hópurinn stendur nú að fjármögnun verkefnisins í gegnum vefsíðuna Karolinafund en áætlað er að gefa bókina út um miðjan maí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×