Lífið

Upprifjun: Vinsælir sjónvarpsþættir snúa aftur úr sumarfríi

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Allir vinsælustu sjónvarpsþættir heims snúa aftur úr sumarfríi í haust. Langt er síðan áhorfendur fylgdust með uppáhaldspersónum sínum og margir jafnvel farnir að gleyma í hvaða aðstæðum þeir skildu við þær.

Fréttablaðið og Vísir fór yfir það helsta sem gerðist áður en þættirnir fóru í sumarfrí og veltir upp hugmyndum um hvað gerist næst. Þá er bara að setja sig í stellingar fyrir komandi imbahaust.





Ákveður Carrie að eignast barnið?


Homeland

Frumsýning vestan hafs: sunnudaginn 5. október

Þótt Brody hafi drepið Akabari þannig að Javadi gæti komist til valda var Brody klófestur og hengdur á almannafæri. Saul hætti hjá leyniþjónustunni og byrjaði í einkageiranum og Lockhart, forstjóri leyniþjónustunnar, hækkaði Carrie í tign. Hún er enn í vafa um hvort hún eigi að eiga barn sitt og Brodys sem hún ber undir belti.

Hvað gerist næst?

Carrie á að hafa eignast barnið áður en nýja serían byrjar, ef hún ákveður að halda því, en hún einblínir sem fyrr á frama sinn og starfar nú í Mið-Austurlöndum. „Þættirnir snúast um þann kostnað sem fylgir því að tryggja öryggi Bandaríkjanna,“ segir framleiðandinn, Alex Gansa.





Dunphy-fjölskyldan fær nýja nágranna


Modern Family

Frumsýning vestan hafs: miðvikudaginn 24. september

Mitch og Cam giftu sig og Haley laðaðist óvænt að Andy.

Hvað gerist næst?

Mitch og Cam reyna að láta hveitibrauðsdagana endast eins lengi og hægt er þótt mikil ábyrgð fylgi nýju starfi Cam sem fótboltaþjálfara. Börnin í þáttunum ná ýmsum áföngum – Alex skoðar háskóla en hann vill læra á austurströndinni en það líst Phil og Claire ekkert á. Manny reynir að eignast kærustu og Luke fer að efast um sjálfan sig í kjölfarið. Dunphy-fjölskyldan fær nýja nágranna og myndast rígur þar á milli.





Árið hennar Abby


Scandal

Frumsýning vestan hafs: fimmtudaginn 25. september

Olivia Pope fór að ráðum föður síns, Rowans, og settist upp í flugvél með Jake og yfirgaf Washington og Fitz. Hún vissi þó ekki að faðir hennar myrti son Fitz og Mellie svo að hann gæti orðið hæstráðandi hjá B613 aftur. Sá eini sem áttaði sig á því var Harrison en á lokamínútum síðasta þáttar var byssu beint að höfði hans.

Hvað gerist næst?

Líkurnar segja að Harrison sé látinn og Olivia tekur þeim fréttum væntanlega ekki vel. Þetta verður serían hennar Abby og kynnast áhorfendur henni betur.





Ættleiðing hjá Alan og Walden


Two and a Half Men

Frumsýning vestan hafs: fimmtudaginn 30. október

Alan og Gretchen giftu sig næstum því en hún fór frá honum fyrir fyrrverandi eiginmann sinn eftir að Lyndsey hringdi í Gretchen og sagði henni að hann vildi hana aftur. Walden huggar Alan með því að bjóða honum áframhaldandi búsetu í strandhúsinu.

Hvað gerist næst?

Walden gengur í gegnum tilvistarkreppu og reynir að fá Alan til giftast sér svo þeir geti ættleitt barn saman.





Lögfræðidrama


The Good Wife

Frumsýning vestan hafs: sunnudaginn 21. september

Will lést, sem kom öllum í opna skjöldu. Alicia batt enda á samband sitt við Peter en samþykkti að sjást opinberlega með honum til að vernda starfsframa þeirra beggja. Diane bað um stöðu hjá Florrick/Agos en Cary reyndi að stöðva það sem bitnaði á sambandi hans og Aliciu. Eli bað Aliciu um að bjóða sig fram sem ríkissaksóknara eftir að Diane vildi það ekki.

Hvað gerist næst?

Alicia vill enn ekki ríkissaksóknarastöðuna enda nóg af drama á lögfræðistofunni.





Leynisamband á stöðinni


Brooklyn Nine-Nine

Frumsýning vestan hafs: sunnudaginn 28. september

Jake sagði Amy hug sinn og tók þá áhættu að missa kannski vinnuna þegar hann vildi afhjúpa samsæri. Charles vaknaði í rúmi með Ginu eftir að hann hætti við að kvænast Vivian.

Hvað gerist næst?

Talsverður tími er liðinn síðan áhorfendur sáu gengið síðast en áfram verður fylgst með leynisambandi Charles og Ginu. Meira álag er á öllum á stöðinni en ný kona á skrifstofunni kemur öllu í uppnám.





Síðasta serían


Boardwalk Empire

Frumsýning vestan hafs: sunnudaginn 7. september

Nucky lagði á ráðin um að drepa bróður sinn, Eli, eftir að hann sveik hann. Honum tókst ekki ætlunarverk sitt því sonur Elis kom inn í herbergið. Gillian fór í fangelsi og dóttir Chalkys var drepin fyrir mistök í stað Dr. Narcisse. Skyttan Richard Harrow slasaðist í leiðinni.

Hvað gerist næst?

Þetta verður síðasta serían af Boardwalk Empire og hoppar atburðarásin fram í tíma um sjö ár, til ársins 1931, beint í kreppuna miklu. Nucky reynir að gera fyrirtæki sitt lögmætt með því að hefja samstarf við Bacardi-rommmerkið. Uppgjör verður í stríðinu á milli Chalky og Narcisse og litið verður aftur til barnæsku Nuckys og Elis.





Breyttar aðstæður eftir andlát


The Blacklist

Frumsýning vestan hafs: mánudaginn 22. september

Sá sem er efstur á svarta listanum, maður að nafni Berlin, brotlenti flugvél til að ná Red og gengur nú laus. Berlin gerði Alríkislögregluna líka að skotmarki sínu sem varð til þess að Malik lést og Cooper lenti á spítala. Liz skaut gervieiginmann sinn, Tom, en líkið hvarf á dularfullan hátt. Hún spurði Red líka út í andlát föður síns og hann ítrekaði að hann hefði látist í eldsvoða.

Hvað gerist næst?

Áhorfendur eru færðir nokkra mánuði fram í tímann og teymi Alríkislögreglunnar hefur breyst eftir andlát Maliks. Nýtt fólk hefur störf en bið verður á að áhorfendur fái að vita meira um örlög Toms.





Hvar er Sheldon?


The Big Bang Theory

Frumsýning vestan hafs: mánudaginn 22. september

Penny og Leonard trúlofuðu sig og ætla að búa saman sem kom Sheldon í uppnám. Hann yfirgaf borgina eftir að hann kyssti Amy í fyrsta sinn. Raj og Emily sváfu saman en Stuart varð húsvörður Mrs. Wolowitz.

Hvað gerist næst?

Við sjáum hvar Sheldon býr í fyrsta þættinum en óvíst er hvernig fer fyrir sambandi hans og Amy. Stuart er enn húsvörður en Penny gefur leiklistardrauminn upp á bátinn og snýr sér að sölumennsku í fyrirtæki Bernadettes. Það skapar vandamál á milli hennar og Leonards.





Meredith vill ekki flytja


Grey's Anatomy

Frumsýning vestan hafs fimmtudaginn 25. september

Áður en þátturinn fór í sumarfrí sagði Cristina bless við bestu vinkonu sína, Meredith. Á sama tíma stóð Meredith á tímamótum þar sem eiginmaður hennar, Derek, vill flytja til Washington en hún er ekki jafn sannfærð um flutningana. Í ofanálag er hálfsystir hennar, Margaret, dóttir móður hennar, Ellis Grey, og læknisins Richards Webber, byrjuð að vinna á sjúkrahúsinu en hún var gefin til ættleiðingar þegar hún var smábarn. Þá átti Bailey að taka við sæti Cristinu í stjórn sjúkrahússins en Cristina gaf Alex sæti sitt. Þá sagði April Jackson líka frá því að hún væri ólétt.

Hvað gerist næst?

Meredith samþykkir líklega ekki flutningana, Owen finnur sér vafalaust nýja konu, kannski Amelíu, og Alex berst fyrir sæti sínu í stjórninni þó að Bailey sé brjáluð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×