Erlent

Uppreisnarmenn í Sýrlandi samþykkja að taka þátt í friðarviðræðum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Talið er að uppreisnarhóparnir muni krefjast þess að Assad forseti muni láta af völdum sínum.
Talið er að uppreisnarhóparnir muni krefjast þess að Assad forseti muni láta af völdum sínum. Vísir/EPA
Sýrlenskir uppreisnarhópar hafa samþykkt að taka þátt í friðarviðræðum sem haldnar verða undir forystu Tyrklands og Rússlands í Astana, höfuðborg Kasakstan í næstu viku. The Guardian greinir frá.

Vopnahlé hefur ríkt í landinu síðan í lok desember en leiðtogar uppreisnarhópanna höfðu áður hótað því að taka ekki þátt í friðarviðræðunum þar sem þeir töldu stjórnarliða brjóta gegn skilmálum vopnahlésins.

Vonast er til að friðarviðræðurnar muni leiða til lykta borgarastyrjöldina í Sýrlandi en að viðræðunum munu koma uppreisnarhópar, stjórnarliðar, Rússar, Tyrkir og Íranar. Þá hefur Bandaríkjamönnum einnig verið boðið til viðræðnanna.

Talið er að friðarviðræðurnar muni hefjast mánudaginn 23. janúar næstkomandi.

Forystumenn uppreisnarhópa eru vongóðir um að viðræðurnar geti bundið enda á borgarastyrjöldina. „Allir uppreisnarhóparnir ætla til Astana. Allir eru sammála um mikilvægi þess að enda blóðbaðið“ segir Mohammed Alloush sem fara mun fyrir nefnd leiðtoga uppreisnarmanna í friðarviðræðunum.

Engin skilyrði hafa verið sett fram af neinum aðila fyrir viðræðunum en þó er talið að uppreisnarmenn muni krefjast þess að Assad, forseti Sýrlands fari frá völdum ef þeir eigi að samþykkja endanlega að fella niður vopn sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×