Innlent

Uppnámið í Leifsstöð: Tuttugu flugferðum seinkaði og starfsfólk þurfti að öskra til að koma upplýsingum til farþega

Birgir Olgeirsson skrifar
Mynd sem tekin var í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í gær þegar hún var rýmd.
Mynd sem tekin var í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í gær þegar hún var rýmd. Twitter/Felix Bergsson
Um tuttugu áætlunarferðum frá Keflavíkurflugvelli seinkaði vegna óreiðunnar sem skapaðist á flugvellinum í gær þegar uppgötvaðist að tæplega fjörutíu farþegar frá Grænlandi höfðu ekki farið í gegnum vopnaleit.

Mesta seinkunin nam fjórum klukkutímum en allt tiltækt starfsfólk Keflavíkurflugvallar var kallað til, þar að auki þeir sem voru á frívakt, til að aðstoða við að rýma Flugstöð Leifs Eiríkssonar þegar málið uppgötvaðist, en senda þurfti þrjú þúsund farþega í gegnum vopnaleit. Þegar mest var voru rúmlega 300 starfsmenn sem tóku þátt í þessari aðgerð.

Mistökin uppgötvuðust eftir 45 mínútur

Farþegarnir frá Grænlandi voru í Dash 8 Q200 flugvél frá Bombardier, sem tekur 37 farþega, sem hafði flogið með þá frá Nuuk til Keflavíkur. Vélin lenti um þrjú leytið í gær en um 45 mínútum síðar uppgötvaðist að farþegunum hafði verið ekið að röngu landgönguhliði, sem þýddi að þeir fóru ekki í gegnum vopnaleit líkt og til stóð. Farþegarnir dreifðust þar með um flugstöðina en þegar mistökin voru ljós þurfti að hafa samráð við öll flugfélögin á vellinum og önnur fyrirtæki sem eru með starfsemi þar til að ákveða næstu skref.

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir það ferli hafa gengið ótrúlega hratt fyrir sig, en á um tíu mínútum var búið að ákveða að rýma alla flugstöðina og senda alla þrjú þúsund farþegana sem þar voru í vopnaleit. Við þessar aðstæður kallar verklag Keflavíkurflugvallar á það að leit sé gerð í allri flugstöðinni þar að auki.

Farþegarnir frá Nuuk höfðu farið í gegnum vopnaleit á flugvellinum í Nuuk en sú vopnaleit stenst ekki alþjóðlegar kröfur og áttu þeir því að fara í gegnum aðra vopnaleit í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hefðu mistökin uppgötvast fyrr hefði ekki þurft að fara í jafn umfangsmikla aðgerð og raun bara vitni að sögn Guðna.

Ferlið allt saman tók um fjóra klukkutíma, sem þýðir að vopnaleitinni var lokið um klukkan átta í gærkvöldi, en fyrsta vélin fór frá Keflavíkurflugvelli um þremur tímum eftir að flugstöðin var rýmd.

Ætla að bæta hátalarakerfið

Guðni segir Isavia ætla að læra af þessum mistökum og skoða hvernig er hægt að bæta verklagið þegar kemur að rýmingu flugstöðvarinnar.

Vísir ræddi við farþega sem var staddur í flugstöðinni í gær sem sagði að engin tilkynning hefði borist í gegnum hátalarakerfi um ástæður aðgerðarinnar.

Guðni staðfestir að margar kvartanir hafi borist vegna þessa og að Isavia muni fara í það að bæta kallkerfið í innritunarsal. Starfsfólk hafi þurft að standa í tröppum og öskra yfir farþegahópinn til að koma upplýsingum til skila.

Einhverjir höfðu einnig áhyggjur af því að áfengi sem þeir höfðu keypt í Fríhöfninni yrði tekið af þeim við öryggisleitina vegna gildandi vökvatakmarkanna. Guðni sagði við Vísi í gærkvöldi að farþegarnir fengju ekki að fara með áfengið í gegnum vopnaleitina en allir sem höfðu keypt eitthvað fengu kvittun sem þeir gátu framvísað í Fríhöfninni og fengið það sama og þeir keyptu.


Tengdar fréttir

Vopnaleit lokið í Leifsstöð

Allir farþegar eru nú aftur komnir inn á brottfararsvæði Leifsstöðvar eftir að byggingin var rýmd fyrr í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×