Innlent

Upplýsingum um umgengnismál ábótavant segir þingmaður

fanney birna jónsdóttir skrifar
Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Sýslumannsembætti utan höfuðborgarsvæðisins hafa aðeins tvisvar úrskurðað um umgengni forræðislauss foreldris sjö daga af hverjum fjórtán síðan þeim var veitt heimild til þess. Heimildin var veitt þegar breytingar á barnalögum tóku gildi 1. janúar 2013. Þetta kemur fram í svari innanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Guðmundar Steingrímssonar, formanns Bjartrar framtíðar.

Sýslumaðurinn á Sauðárkróki og sýslumaðurinn á Höfn hafa í hvort skiptið úrskurðað um slíka umgengni en önnur sýslumannsembætti ekki. Á árunum 2013 og 2014 hafa þessi embætti úrskurðað í alls 33 málum. Í þessum málum hefur niðurstaðan verið umgengni við föður í 25 skipti en móður í fimm skipti.

Guðmundur segir það vonbrigði að aðeins hafi verið úrskurðað tvisvar um jafna umgengni, viku og viku. „Það er ekkert minnst á mjög umfangsmiklar rannsóknir sem hafa verið gerðar á þessu á Íslandi sem sýna að jöfn umgengni kemur mjög vel út fyrir börn. Ég óttast að sýslumannsembættin og ráðuneytið séu ekki alveg nógu víðsýn þegar kemur að þessu,“ segir Guðmundur.

Í svarinu er tekið fram að umgengnismálum hjá sýslumönnum getur lokið með öðrum hætti en með úrskurði, til að mynda með samkomulagi um umgengni, sem er algengast.

Í svarinu kemur einnig fram að úrskurðir í umgengnismálum séu ekki birtir almenningi, heldur aðeins á sérstökum úrskurðavef sem eingöngu sýslumenn hafa aðgang að. Guðmundur gagnrýnir þetta fyrirkomulag.

„Mér finnst þetta undarlegt. Alls konar úrskurðir í alls konar viðkvæmum persónulegum málum eru birtir, auðvitað undir nafnleynd og eiga ekki að vera persónurekjanlegir. Mér finnst ráðuneytið ekki svara nægilega fyrir það af hverju þetta er bara birt á lokuðum vef. Þetta eru viðkvæm mál en það er þess vegna mjög mikilvægt að þau séu meðhöndluð vel og gagnsæi er ein besta leiðin til að skapa hvata fyrir kerfið til að meðhöndla viðkvæm mál vel. Því er ábótavant þarna,“ segir Guðmundur. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×